Home Fréttir Í fréttum Hafnar hugmyndum um stækkun hótels við Mývatn

Hafnar hugmyndum um stækkun hótels við Mývatn

104
0
Gert er ráð fyrir því að við suðurhlið hússins, sem sést hér, verði einna stærstur hluti viðbyggingarinnar.
Umhverfisstofnun leggst gegn hugmyndum Icelandair Hotels um stækkun Hótel Reykjahlíðar við Mývatn. Fyrirtækið vill stækka hótelið úr 544 fermetrum í 3556 fermetra, aðeins 50 metra frá bakka Mývatns.

Þetta kemur fram í svari Umhverfisstofnunar til Skútustaðahrepps, sem óskaði eftir umsögn hennar vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi á lóð Hótels Reykjahlíðar. Með breytingunni yrðu 43 herbergi á hótelinu í stað níu. Íbúar í Mývatnssveit mótmæltu þessum áformum í sumar.

<>

Ekki í samræmi við stefnu

Stofnunin bendir á að í gildandi aðalskipulagi sé áhersla lögð á náttúruvernd og sjálfbæra þróun og telur þessa hugmynd ekki í samræmi við þá stefnu. Svo mikil bygging á verndarsvæði Mývatns og Laxár sé til þess fallin að draga úr tækifærum hvað þessi markmið varðar, vegna þess mikla inngrips sem hún hefði í för með sér á verndarsvæðinu. Gengið yrði um of á náttúrufar Mývatnssveitar með svo mikilli uppbyggingu og myndi hún rýra sérstöðu Mývatns.

Fráveitumál hafa sérstaklega verið í brennidepli síðustu misseri vegna breytinga á lífríki Mývatns og hefur Umhverfisstofnun lagt sérstaka áherslu á að nýbyggingar eins og þessi í Mývatnssveit uppfylli skilyrði um þriggja þrepa hreinsun. Í umsögninni segir að skjöl hafi borist frá Icelandair Hotels þar sem áætluð fráveita sé skoðuð og ígrundað hvernig henni væri best háttað. Engar tillögur liggi þó fyrir sem Umhverfisstofnun geti tekið afstöðu til eins og nauðsynlegt er. Einnig bendir stofnunin á að hún hafi gert athugasemdir við frárennslismál hótelsins eins og þau séu í dag. Þau séu ófullnægjandi og nauðsynlegt sé að úr þeim verði leyst sem fyrst.

Svona lítur hugmynd Icelandair Hotels að stækkun hótelsins út.
Svona lítur hugmynd Icelandair Hotels að stækkun hótelsins út.

Bætir ekki ásýnd

Hvað varðar mat á umhverfisáhrifum segir stofnunin í umsögn sinni að hótelið geti ekki bætt ásýnd verndarsvæðisins eins og fullyrt sé í tillögunni, þrátt fyrir vandaða hönnun og endurbætur á eldri byggingu. Þetta inngrip muni ætíð hafa neikvæð áhrif á verndarsvæðið og verði áhrifin einnig mikil á vatnsgæði og hraun.

Þá telur stofnunin að ef þessi uppbygging yrði leyfð, myndi það setja fordæmi fyrir áform annarra og þar með torvelda stýringu á svæðinu til framtíðar. Hvorki núgildandi aðalskipulag né lög og reglur um verndarsvæði Mývatns og Laxár geri ráð fyrir svo mikilli uppbyggingu innan svæðisins, sem eigi sér ekki hliðstæðu með tilliti til nálægðar við vatnið.

Heimild: Ruv.is