Home Fréttir Í fréttum Fjórfalt fleiri árslaun þarf til að kaupa íbúð í höfuðborginni

Fjórfalt fleiri árslaun þarf til að kaupa íbúð í höfuðborginni

87
0
mynd: Visir.is

Tæplega sjö árslaun þarf til að greiða fyrir hundrað fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við 1,8 árslaun fyrir sambærilega íbúð á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Íslandsbanka um íslenska íbúðamarkaðinn.

<>

Sé miðað við að meðaleinstaklingur (með húsnæðislán) verji 16,5 prósentum af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað, eins og raunin var árið 2014, má áætla að það taki um 42 ár að greiða niður íbúðina á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við 11 ár á Vestfjörðum.

Munurinn á milli dýrasta og ódýrasta fermetrans eftir landshlutum á árinu 2015 var um 286 prósent á meðan munur á milli hæstu og lægstu launa nam 24 prósentum. Því eru aðrir áhrifaþættir en laun sem valda þeim mikla mun sem sést á fermetraverði eftir landshlutum.

Greining Íslandsbanka spáir því að verð íbúðarhúsnæðis muni hækka um 9,3 prósent í ár, 11,4 prósent á næsta ári og um 6,6 prósent á árinu 2018. Jafnframt er því spáð að raunverð íbúðarhúsnæðis muni hækka um 7,8 prósent í ár, 9,7 prósent á næsta ári og um 3,4 prósent á árinu 2018.

Verð íbúðarhúsnæðis á móti launum, leiguverði og byggingarkostnaði er ekki langt frá langtíma meðaltali. Það gefur til kynna að ekki sé verðbóla á íbúðamarkaði.

Ein ástæða hækkunar húsnæðisverðs um þessar mundir að mati greiningarinnar er hröð hækkun kaupmáttar. Gert er ráð fyrir að kaupmáttur launa muni aukast um tíu prósent á þessu ári, og 5,2 prósent á því næsta. Vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna ásamt lýðfræðilegum þáttum, vexti í ferðaþjónustu og takmörkuðu framboði nýbygginga mun þrýsta verði upp.

Deilihagkerfið hefur vaxið hratt undanfarin ár, en 3.049 eignir voru skráðar til útleigu á Airbnb í ágúst 2016 í Reykjavík, tæplega 80 prósent fleiri en í ágúst 2015. Á hverjum degi í júlí var ein af hverjum átta íbúðum í 101 Reykjavík í leigu til ferðamanna í gegnum Airbnb.
Einnig kemur fram í greiningunni að heildarfjöldi íbúða á söluskrá hefur ekki verið minni svo langt sem gögn Þjóðskrár Íslands ná, en einnig hefur meðalsölutími íbúða aldrei verið styttri.

Heimild: Visir.is