Home Fréttir Í fréttum Þörf á smá­um íbúðum aldrei meiri

Þörf á smá­um íbúðum aldrei meiri

64
0

Íslands­banki spá­ir því að verð íbúðahús­næðis hækki á land­inu öllu um 9,3% á þessu ári, um 11,4% á næsta ári og 6,6% á ár­inu 2018. Þetta þýðir sam­kvæmt spá bank­ans raun­hækk­un upp á 7,8% í ár, 9,7% á næsta ári og 3,4% árið 2018. Helstu ástæður hækk­un­ar­inn­ar eru vax­andi kaup­mátt­ur launa, lýðfræðileg­ar breyt­ing­ar og vöxt­ur í ferðaþjón­ustu á móti tak­mörkuðu fram­boði ný­bygg­inga. Þetta kem­ur fram í ný­út­kom­inni skýrslu Íslands­banka um íbúðamarkaðinn á Íslandi.

<>

Verð hækk­ar en ekki verðbóla

Seg­ir í skýrsl­unni að bú­ist sé við því að raun­verðshækk­un­in verði hröðust á fyrri hluta spá­tím­ans, bæði vegna þess að þá sé bú­ist við meiri nafn­verðshækk­un og lægri verðbólgu. Einnig sé reiknað með meiri vexti kaup­mátt­ar, meiri fólks­fjölg­un og meiri vexti í ferðaþjón­ustu á fyrri hlut­an­um.

Ger­ir bank­inn ráð fyr­ir því að und­ir lok spá­tíma­bils­ins muni raun­verð íbúðar­hús­næðis standa nokkuð hátt sögu­lega séð, en í skýrsl­unni seg­ir að það sé nokkuð ná­lægt lang­tíma­jafn­vægi eins og staðan er í dag. Þrátt fyr­ir það tel­ur bank­inn ekki að verðbóla muni mynd­ast á tíma­bil­inu vegna stöðugr­ar hækk­un­ar launa á sama tíma.

Fleiri hjóna­skilnaðir og ein­stæðing­ar

Breyt­ing­ar á lýðfræðileg­um þátt­um eru að sögn bank­ans und­ir­stöðuatriði þegar kem­ur að íbúðamarkaðinum og seg­ir þar að stór hluti ungs fólks á aldr­in­um 18-34 ára, sem eru lík­leg­asti ald­urs­hóp­ur­inn til að kaupa fyrstu íbúð, búi nú í for­eldra­hús­um. Er hlut­fallið í dag um 36% og seg­ir bank­inn því lík­legt að hlut­fall fyrstu kaup­enda muni hækka enn frek­ar í ná­inni framtíð.

Þá hef­ur tíðni hjóna­skilnaða og hlut­fall ein­hleypra einnig auk­ist og eru aðilar í hjóna­bandi eða óvígðri sam­búð með börn nú 5,3 pró­sentu­stig­um færri en árið 1998. Ein­stæðing­um hef­ur fjölgað um 2,8 pró­sentu­stig á sama tíma.

Aldrei meiri þörf á smærri íbúðum

Miðað við þess­ar töl­ur og mann­fjölda­spá Hag­stof­unn­ar seg­ir bank­inn að allt bendi til þess að spurn eft­ir smærri íbúðum muni að öll­um lík­ind­um aukast enn frek­ar. „Með áður­greinda þróun til hliðsjón­ar hef­ur þörf á smá­um íbúðum að öll­um lík­ind­um aldrei verið meiri en nú,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Heimild: Mbl.is