Byggingaland það sem alla jafna er nefnt Grænuborgarsvæðið í Sveitarfélaginu Vogum hefur nú verið auglýst til sölu. Hér er um að ræða byggingasvæði í landi Austurkots og Minni-Voga, norðan núverandi þéttbýlis í Vogum.
Svæði þetta var í eigu einkahlutafélags, sem á sínum tíma hóf undirbúning gatnaframkvæmda. Það félag fór síðar í þrot, en þrotabú þess félags hyggst nú freista þess að selja svæðið.
Á svæðinu er gert ráð fyrir 246 íbúðum, samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð, þ.e. einbýlishúsum á einni hæð, parhúsum og raðhúsum á einni og tveimur hæðum, ásamt 3 – 4 hæða fjölbýlishúsum.
Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er síðan gert ráð fyrir öðrum áfanga á síðari stigum, þannig að fullbyggt svæðið þýðir umtalsverða stækkun á þéttbýlinu í Vogum, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, í pistli sem hann skrifar í fréttabréf sitt í Vogum.
Mikil uppbygging fyrirsjáanleg á Suðurnesjum, og ekki að efa að eftirspurn eftir byggingalóðum fari vaxandi á næstunni. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þessara mála, og óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan, segir Ásgeir ennfremur.
Heimild: Vf.is