Home Fréttir Í fréttum Óvíst um stóruppbyggingu í Keflavík

Óvíst um stóruppbyggingu í Keflavík

158
0
Ekki hefur verið ákveðið hvort byrjað verður á fyrsta áfanga framtíðarstækkunar Keflavíkurflugvallar. Hönnun og framkvæmdir tækju fimm ár, og á meðan er útlit fyrir að flugfélögin þurfi að fjölga flugferðum utan háannatíma á daginn ef þau vilja auka umsvif verulega.

Ef fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll verður áfram hröð er útlit fyrir að ráðist verði í meiriháttar framkvæmdir þar. Isavia kynnti í fyrra þróunaráætlun, með metnaðarfullum hugmyndum um uppbyggingu til 2040. Þær eru þó ekki meitlaðar í stein.

<>

„Þróunaráætlunin sagði ekki endilega „svona munum við byggja“, heldur svona sjáum við framtíðina til 2030-2040,“ segir Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia.

Fyrsti stóri áfanginn er nýr landgangur og flugvélastæði til austurs, en enn hefur ekki verið ákveðið að ráðast í hann. Áætlaður kostnaður, bara við þann áfanga, er 40-60 milljarðar króna.

„Ef við tökum ákvörðun um það í dag þá mun það koma í notkun eftir svona fimm ár. Gríðarlega mikil hönnunarvinna og undirbúningsvinna, jarðvegsvinna og annað sem þarf að fara í,“ segir Elín.

Flugfélögin hyggja á meiri umsvif, en mest hefur heyrst frá Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, sem segir að farþegafjöldi félagsins tvöfaldist næstum á næsta ári og að flugferðir til Asíu séu aðeins tímaspursmál. Hann vill skýra stefnu svo hægt sé að gera Keflavíkurflugvöll að öflugum tengiflugvelli sem gæti jafnvel orðið Dúbaí norðursins. Hvort sem það verður nokkurn tímann annað en skýjaborgir má spyrja hvort áætlanir um verulega aukna umferð séu raunhæfar fyrst svo mörg ár tekur að stækka völlinn? Elín bendir á að hann sé aðeins fullnýttur á háannatíma. „Við höfum ennþá pláss á öðrum tímum dagsins ef það hentar flugrekstraraðilum að fara þá leið.“

En þurfa flugfélögin þá að breyta sínu leiðarkerfi og nýta dauða tímann ef þau vilja auka umsvifin verulega? „Kannski ekki breyta sínu leiðarkerfi í heild, en hugsa kannski ný tækifæri á öðrum tímum innan flugvallarins, ef þeir vilja gera það strax.“

Heimild: Ruv.is