Home Fréttir Í fréttum Ný Hvalfjarðargöng verði undirbúin 2019-2022

Ný Hvalfjarðargöng verði undirbúin 2019-2022

133
0
Hvalfjarðargöng
Alls verða 35 milljarðar króna settir í stofn- og tengivegi og jarðgöng á tímabilinu 2015-18, og alls verða 124 milljarðar settir í það næstu tíu árin, samkvæmt samgönguáætlun til tíu ára sem var lögð fram á Alþingi í dag.

Áætluninni er skipt í þrjú tímabil og tiltekið í hvaða vegaframkvæmdir verður farið og þá á hvaða tímabili. Framkvæmdir sem hefja á á fyrsta tímabilinu, frá 2015-18, eru allnokkrar og verður farið yfir þær helstu hér.

<>

Á Suðurlandi ber hægt að byrjað verður á að gera kaflann milli Selfoss og Hveragerðis að 2+1 vegi, lokið verður við breikkun Hellisheiðar og Reykjavegur milli Biskupstungnabrautar og Laugarvatnsvegar verður endurgerður og malbikaður.

Á suðvesturhorninu á meðal annars að breikka hringveginn í Mosfellsbæ, gera mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar og í kjölfarið breikka Reykjanesbrautina að Hvassahraun. Að auki á að framlengja Arnarnesveg frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi, ljúka Suðurstrandarvegi norðan Grindavíkur og leggja bundið slitlag á Skálafellsveg. Að auki á að leita leiða til að fjármagna Sundabraut með aðkomu einkaaðila.

Nýr vegur yfir Dynjandisheiði

Á vestursvæðinu á meðal annars að hefja endurgerð Uxahryggjavegar næst Borgarfjarðarbraut og byrja á veginum frá Þorskafirði að Gufufirði, þó að ekki liggi enn fyrir hvernig vegurinn eigi að liggja. Þá á einnig að byrja á nýjum veg yfir Dynjandisheiði, sem verður mögulega með stuttum jarðgöngum efst á heiðinni, og að auki verður byrjað á Dýrafjarðargöngum. Þá er einnig gert ráð fyrir snjóflóðavörnum á Súðavíkurhlíð, lagfærðingum á Djúpvegi yst í vestanverðum Hestfirði og framkvæmdir verða á Innstrandarvegi milli Heydalsár og Þorpa, sem og Strandarvegi um Bjarnarfjarðarháls með nýrri brú á Bjarnarfjarðará.

Á norðursvæðinu á að laga Skagastrandarveg og gatnamót hringvegarins við þéttbýlið á Akureyri auk þess sem byrjað verður á að leggja bundið slitlag á Norðausturveg um Langanesströnd. Þá verður Dettifossvegur endurgerður.

Mikið framkvæmt við Hornafjörð

Á austursvæðinu verður vagkaflinn frá Skriðuvatni að Axarvegi endurgerður og byrjað á endurgerð hringvegarins um Berufjarðarbotn. Þá verða umfangsmiklar framkvæmdir við Hornafjörð. Bæði verður legu hringvegarins um Hornafjarðarfljót breytt, auk þess sem gerðar verða nýjar brýr yfir Kotá og Virkisá og nýr vegur milli kotár og Morsár. Með því styttist hringvegurinn um minnst 5 km og einbreiðum brúm fækkar um fjórar. Þá verða Norðfjarðargöngin klárið og byrjað á endurbótum á veginum frá Eiðum út í Njarðvíkurskriður.

Tekið skal fram að fleiri stórar framkvæmdir eru svo fyrirhugaðar síðar í áætluninni. Þar má nefnd nýja brú yfir Ölfusá norðan við Selfoss, nýr vegur sunnan Geysissvæðisins, breikka á Suðurlandsveg frá Norðlingaholti nánast að Suðurlandsvegi og einnig verður Vesturlandsvegur breikkaður í Kollafirði, frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðarvegi. Þá er einnig á seinni hluta áætlunarinnar að færa hringveginn framhjá Borgarnesi, byggja nýjar brýr þar sem hringvegurinn fer yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum og byggja nýja brú yfir Lagarfljót, svo fátt eitt sé nefnt.

Seyðisfjarðargöng undirbúin

Í áætluninni er sérstakur kafli um jarðgöng. Þar kemur fram að samhliða framkvæmdum við Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga verði unnið að undirbúningi Seyðisfjarðarganga, með athugun á mögulegum gangastæðum. Ekki er komið fjármagn í þau í þessari áætlun, en gert er ráð fyrir að þau kosti 22-25 milljarða króna. Þá er gert ráð fyrir að jarðgöngum vegna framkvæmdanna á Bakka ljúki á næsta ári.

Að auki er nefnt að gera megi ráð fyrir að huga þurfi á öðru tímabili áætlunarinnar, 2019-2022, að því að tvöfalda Hvalfjarðargöngin. Umferðin hafi aukist það mikið á síðustu misserum að líklegt er að skilyrði um öryggiskröfur krefjist tvöföldunar. Umferðarspá gerir ráð fyrir 6.500 bílum á sólarhring en hún má ekki vera meiri en 8.00 bílar. Þeim mörkum verði náð á framangreindu tímabili.

Einnig er nefnt að fjármagna þurfi rannsóknir vegna Súðavíkurganga á tímabilinu. Ákall sé um slíkt vegna tíðra snjóflóða í Súðavíkurhlíð.

Heimild: Ruv.is