Reykjavíkurborg segir að mannleg mistök hafi orðið til þess að harðorð umsögn skipulagsfulltrúa um vöruhús í Álfabakka fylgdi með við afgreiðslu málsins. Umsögninni var breytt á vef borgarinnar stuttu síðar, en borgin segir seinni útgáfuna vera rétta.
Reykjavíkurborg segir að mannleg mistök hafi leitt til þess að skjal með harðorðri umsögn skipulagsfulltrúa var látin fylgja endanlegri útgáfu á fundargerð skipulagsfulltrúans á vöruhúsi við Álfabakka í Reykjavík.
Þetta kemur fram í svörum borgarinnar við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis. Hann hafði spurt hvernig stóð á því að fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa var tekin af vefnum og síðar birt aftur í breyttri mynd.
Neikvæðar umsagnir skipulagsfulltrúa um framkvæmdirnar höfðu þá verið fjarlægðar en í þeim komu fram það sjónarmið að bygging væri ljót og gera þyrfti ríkari kröfur til útlits bygginga í íslenskri löggjöf.
Umboðsmaður hafði óskað eftir svari frá borginni um hvort umsögninni hafi verið breytt, hvaða breytingar voru gerðar og hvort þetta tíðkist almennt hjá borginni. Tilefni fyrirspurnarinnar var umfjöllun Morgunblaðsins frá í maí.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri sagði í viðtali við Morgunblaðið af því tilefni að umsögninni hafi verið breytt þar sem sú fyrri hafi ekki þótt málefnaleg.
Í svari borgarinnar segir aftur á móti að seinni útgáfan sé sú rétta; fyrri hafi aðeins verið drög.
Mannleg mistök hafi orðið til þess að drögin voru færð undir dagskrárliðinn í skjalakerfi borgarinnar og enduðu þannig á vefnum. Þannig hafi umsögninni í raun ekki verið breytt eftir fundinn.
Heimild: Ruv.is