Home Fréttir Í fréttum 4. hæð Hafnarhússins nánast ónýt vegna myglu

4. hæð Hafnarhússins nánast ónýt vegna myglu

129
0
Hafnarhúsið Mynd: Ruv.is

4. hæð Hafnarhússins, þar sem Faxaflóahafnir og velferðarráðuneytið hafa verið með skrifstofur, er nánast ónýt og fara þarf í verulegar framkvæmdir við endurbætur á hæðinni. Kostnaður við þær gæti numið á milli 200 og 700 milljónir króna, að sögn hafnarstjóra Faxaflóahafna sem eiga 60 prósent í húsinu á móti Reykjavíkurborg.
Velferðarráðuneytið ákvað í mars á þessu ári að flytja starfsemi sína úr húsinu. Niðurstöður úr rannsókn verkfræðistofunnar EFLU bentu þá til þess að loftgæðum innandyra í suðurhluta 4. hæðar væri ábótavant, raki væri víða og mygluvöxtur kominn í byggingarefni á nokkrum stöðum. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, er með skrifstofur í þeim hluta hússins.

<>

Samkvæmt nýrri skýrslu EFLU sem lögð var fram á fundi Faxaflóahafna fyrir helgi er ástandið engu skárra í norðurhluta hússins. Og þar er Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, með sínar skrifstofur.

Tekin voru 19 sýni úr byggingaefnum og reyndust 9 vera með mikinn mygluvöxt, 6 með minni mygluvöxt og 4 án myglu. Skýrsluhöfundar segja að fjarlægja þurfi öll rakaskemmd byggingaefni og endurbyggja með þeim hætti að byggingin standist kröfur um heilnæmt húsnæði. Raunar þurfi að fara í umtalsverðar og kostnaðarsamar framkvæmdir til að tryggja góða innivist í húsinu.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir í samtali við fréttastofu að þeir þurfi núna að ráða ráðum sínum hver næstu skref verða. Hann segir þrjá valkosti í stöðunni og kostnaðurinn geti numið allt að 700 milljónum verði ákveðið að endurbyggja fjórðu hæðina. Hann segir ekki hlaupið að því að flytja alla starfsemina út úr húsinu – ráðuneytið sé nú að skoða sín mál og þá eru Faxaflóahafnir með skrifstofur sínar á hæðinni. „En við erum tiltölulega róleg að svo stöddu.“

Hafnarhúsið var reist árið 1933 og var fjórðu hæðinni bætt við um 1960

Heimild: Ruv.is