Home Fréttir Í fréttum Ætla að brjóta blað í íslenskri byggingasögu

Ætla að brjóta blað í íslenskri byggingasögu

520
0
Fibra hús

Nýsköpunarfyrirtækið Fibra tekur á næstu vikum til starfa í Vogum og mun framleiða einingar til húsbygginga úr steinull og trefjastyrktu plasti. „Við ætlum okkur að brjóta blað í byggingasögu á Íslandi enda allir orðnir hundleiðir á leka og  myglu og þeim erfiðleikum sem henni fylgja,“ segir Regin Grímsson, einn frumkvöðlanna að baki Fibru. Með honum standa að fyrirtækinu þau Helga Hinriksdóttir, Andri Thor Gunnarsson og Haraldur Ingvarsson. Þau sigruðu í frumkvöðlakeppninni Toppstöðinni sem sýnd var á RÚV síðasta haust.

<>

Regin hefur fengist við smíðar á bátum úr trefjaplasti í fjóra áratugi og ætlar nú að nýta reynslu sína og byggja hús úr því og steinull. Hann spáir því að þróun í húsbyggingum verði með svipuðum hætti og við bátasmíðar. „Þegar ég byrjaði að smíða báta úr trefjaplasti árið 1975 var erfitt að fá efnið samþykkt hjá Siglingastofnun enda þekkti fólk ekkert annað en bátar væru úr tré og stáli. Ég hélt áfram að mæta til Siglingastofnunar með erlend tímarit og sýna þeim. Svo allt í einu skiptu menn um skoðun og þá tók plastið yfir. Ég spái því að það sama gerist með húsbyggingar og er því mjög spenntur að fara af stað með framleiðsluna,“ segir hann.

18-09-2016-regin-grimssonHúsin sem Fibra framleiðir eru úr einingum úr gler- og koltrefjum, með kjarna úr steinull og eru lokuð á köntum. Gólfin geta verið úr sams konar einingum eða steinsteypt. Að sögn Regins þarf að grafa skurð og húsveggirnir ganga 80 til 100 sentimetra niður í hann. Svo er húsið fest með festingum og sandur látinn næst húsveggjum og grófara efni mokað að. „Ef fólk vill frekar hafa steinsteypta gólfplötu þá eru veggirnir með festingum sem ganga inn í gólfplötuna.“ Regin segir stærsta kostinn við húsin að þau leka ekki né slaga og í þeim myndist ekki mygla líkt og geti gerst þegar hús eru byggð úr steypu eða timbri.

Regin segir mun minni mengun fylgja byggingu á trefjaplasthúsum með steinull en steypuhúsum og að mengunin við framleiðsluna sé einn þriðji sé miðað við steypuhús.

Vill aðeins ráða fólk á besta aldri
Frumkvöðlarnir í Fibra eru nú að setja upp framleiðsluna í Vogum og ráða til sín iðnverkafólk. Að sögn Regins leggja þau sérstaka áherslu á að fá til sín fólk, 45 ára og eldra, sem býr í Vogum og verða starfsmennirnir fjórir til sex til að byrja með. „Markmiðið er að ráða til okkar góðan blandaðan hóp til framtíðar, bæði konur og karla. Það eru mikil tækifæri fyrir rétta fólkið að taka þátt í uppbyggingunni á þessu stigi málsins.“ Lögð verður sérstök áhersla vellíðan starfsmanna og hreyfingu á vinnustaðnum og fólk hvatt til að koma gangandi eða hjólandi til vinnu. Þá er ætlunin að einu sinni í viku fari hópurinn saman að róa á kajak á vinnutíma. „Hér í höfninni er frábær aðstaða til siglinga og alltaf logn og lágdeyða. Þegar fólk verður svo komið á bragðið getur það fengið kajaka lánaða í sínum frítíma og róið út á sjó til fiskjar.“ Hádegisverðurinn verður klukkustund og segir Regin það mikilvægt svo fólk geti bæði borðað og hvílt sig svo á eftir.

Fólk getur flutt húsin með sér
Regin segir Fibra húsin henta vel fyrir ungt fólk sem er að byrja að búa enda geti það fyrst sett upp lítið þriggja herbergja hús og byggt við þegar fjölskyldan stækkar. Síðar geti fólk selt frá sér viðbótina þegar það vill minnka við sig. Engir burðarveggir eru í húsunum og segir Regin því ekki flókið að breyta herbergjaskipan þegar þau eru stækkuð. „Húsin henta sérstaklega vel á landsbyggðinni þar sem atvinnuöryggi er lítið. Þá getur fólk byggt sér svona hús og flutt með sér ef það missir vinnuna. Hægt er að taka það af byggingarreitinum, loka fyrir öll op setja það á sjóinn og draga það með skipi, en þá verður gólfplatan vitanlega að vera úr trefjaplasti, ekki steypt.“

Þegar þróunarferli eininganna var á lokastigi leitaði Regin til dr. Ríkharðs Kristjánssonar verkfræðings hjá Verkfræðistofunni Eflu og bar hugmyndina undir hann. Ríkharður segir enga ástæðu til halda áfram að byggja hús á sama hátt og alltaf hafi verið gert. „Svo kemur Regin og segir það sem ég hef oft sagt þegar ég hef haldið fyrirlestra um alla gallana í íslenskum húsum, þau hafa alltaf verið byggð á rangan hátt. Ég var því lengi búinn að bíða eftir manni eins og Regin með ferskar hugmyndir um breytingar,“ segir Ríkharður.

Ríkharður vann í rannsóknarhóp sem útrýmdi alkaliskemmdum í steyptum húsum á íslandi árið 1978 og byggði upp blómlega deild í fyrirtæki sínu sem veitti viðhaldsráðgjöf. „Ég hef stýrt viðgerðum á næstum öllum stórbyggingum Íslands. Var fimm ár að þétta Seðlabanka Íslands og lét rífa þök af 50 húsum fyrir austan vegna myglu.“ Nú vinnur hann með áhugamannahópi að því að finna út hversu alvarlegt mygluvandamálið hér á landi er.

Ríkharður kveðst eiginlega vera orðinn leiður á öllu þessu leka-, slaga- og  mygluveseni og hafa beðið lengi eftir nýrri hugsun og fylgist því spenntur með framvindu mála í Vogum.

Heimild: Vf.is