Home Fréttir Í fréttum Aug­lýsa eftir sam­starfsaðilum í Úlfarsár­dalnum

Aug­lýsa eftir sam­starfsaðilum í Úlfarsár­dalnum

89
0
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. Ljósmynd: Eyþór Árnason / Aðsend

Reykjavíkurborg óskar m.a. eftir samtali við lífeyrissjóði.

Reykjavíkurborg segir að næstu skref í undirbúningi nýrra blandaðra íbúða í Höllum í Úlfarsárdal hafi verið tekin. Nú sé unnið að markaðskönnun þar sem kannaður er áhugi, geta og sjónarmið markaðarins vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs íbúðarhverfis í Höllum.

Tilkynnt var um áform Reykjavíkurborgar um nýtt 4 þúsund íbúða hverfi í Úlfarsárdal á blaðmannafundi ríkisstjórnarinnar í lok október. Inga Sæland, þáverandi húsnæðismálaráðherra, sagði að ríkið muni kom að þessari uppbyggingu, m.a. með stofnframlögum og veitingu frekari hlutdeildarlána.

Borgin sagðist ætla að hefja undirbúning að samstarfi um uppbygginguna í samstarfi við innviðafélag.

Í tilkynningu sem borgin sendi frá sér í dag segir að markaðskönnunin sé liður í upplýsingaöflun borgarinnar. Áréttað er að ekki sé um útboð að ræða, heldur sé henni ætlað að styðja við áframhaldandi mótun verkefnisins og ákvarðanatöku um næstu skref.

„Í könnuninni er meðal annars horft til umfangs og skipulags uppbyggingar, samspils íbúðarhúsnæðis og innviða, fyrirkomulag mögulegs samstarfs, fjármögnunar og tímasetninga. Jafnframt er leitað sjónarmiða um hvernig best sé að tryggja gæði, sjálfbærni og raunhæfan framkvæmdaferil í ljósi aðstæðna á byggingamarkaði.“

Meðal aðila sem óskað er eftir samtali við eru verktakar, fjárfestingaraðilar, lífeyrissjóðir og innviðafélög. Í markaðskönnuninni er m.a. spurt um raunhæfni uppbyggingahraða.

„Þetta er eitt stærsta mál samstarfsflokkana í borgarstjórn og gríðarlega gleðilegur áfangi að þetta mikla hagsmunamál sé komið í þennan farveg,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.

„Með samkeppnisviðræðum um innviðafélag erum við að tryggja að innviðir hins nýja hverfis séu byggðir upp á sama tíma og hverfið sjálft. Ég er mjög spennt að sjá útkomuna því það skiptir miklu máli að við séum að leita nýrra leiða til að flýta uppbyggingu nýrra hverfa og auka framboð ólíkra íbúðarkosta svo öll geti fundið sér heimili.”

Í lok nóvember 2025 var skipaður starfshópur sem falið var að hefja undirbúning að samstarfi við innviðafélag um þróun og uppbyggingu nýs íbúðahverfis í Höllum.

Heimild: Vb.is