Vinna við Arnarnesveg, milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar, er komin í fullan gang eftir jólafrí og miðar vel áfram. Unnið er að frágangi á nýju brúnni yfir Breiðholtsbraut, vinna við nýja göngubrú yfir Arnarnesveg stendur yfir, sem og ný undirgöng við Rjúpnaveg.

Þessa dagana er unnið að frágangi nýrrar brúar yfir Breiðholtsbraut, sem var steypt í byrjun nóvember. Verið er að fjarlægja undirslátt af akbraut til norðurs, sem hefur verið lokuð frá því í sumar. Ráðgert að færa umferð yfir á akbrautina um næstu mánaðarmót og þá verður hæðartakmörkunum aflétt.

Þá stendur yfir vinna við undirslátt nýju göngubrúarinnar yfir Arnarnesveg, sem er á móts við Turnahvarf. Áætlað er að steypa brúna fyrir páska.

Ný undirgöng úr forsteyptum einingum
Ný undirgöng, sem eru í byggingu undir Arnarnesveg við Rjúpnaveg, eru að hluta til gerð úr forsteyptum einingum. Þær eru komnar á sinn stað og er nú unnið við frágang þeirra og uppslátt fyrir stoðveggjum sem munu koma við enda undirganganna.

Í vegstæði Arnarnesvegar, milli Breiðholtsbrautar og Rjúpnavegs, er unnið við fyllingar og frágang ofanvatnslagna. Við göngu- og hjólastíg, sem verið er að leggja austan við veginn, er unnið við uppsetningu ljósastaura og frágangi á burðarlagi undir malbik.

Brúin yfir Dimmu opin
Fjölmörgum lykilverkefnum er þegar lokið. Helst ber að nefna nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu sem er tilbúin og hefur þegar verið tekin í notkun. Nokkrir kaflar á Breiðholtsbraut hafa verið malbikaðir, sem og göngu– og hjólastígar í Elliðaárdal.

Laus jarðefni sem til falla vegna framkvæmdanna hafa verið flutt í Vetrargarð Reykjavíkurborgar. Vetrargarðurinn er í uppbyggingu þar sem skíðabrekkan er við Jafnasel. Einnig hefur verið sáð í stærstan hluta svæðisins.

Áætlað er að framkvæmdum við Arnarnesveg og tengd verkefni ljúki í nóvember 2026. Arnarnesvegur, 3. áfangi, er hluti af stofnvegaverkefnum sem heyra undir Samgöngusáttmálann.

Heimild: Vegagerdin.is












