Home Fréttir Í fréttum Hafnarstræti 75 valin fallegasta nýbygging landsins

Hafnarstræti 75 valin fallegasta nýbygging landsins

76
0
Hafnarstræti 75 á Akureyri. RÚV – Kristófer Óli Birkisson

Húsið var valið það fegursta í kosningu Arkitektúruppreisnarinnar. Nýbyggingar í miðbæ Selfoss sem byggja á eldri húsum náðu ofarlega á lista.

Hafnarstræti 75 á Akureyri er fallegasta nýbygging landsins að mati kjósenda í kosningu Arkitektúruppreisnarinnar. Hún hlaut 39,5% atkvæða í kosningunni. Alls kusu 5.755 í kosningu hreyfingarinnar, þar sem valið stóð á milli fimm bygginga.

Arkitektúruppreisnin á Íslandi er umræðuvettvangur um framtíð arkitektúrs á Íslandi. Hópurinn rekur uppruna sinn til Svíþjóðar og sambærilegar hreyfingar hafa sprottið upp á hinum Norðurlöndunum. Á Facebook-síðu hópsins segir að Arkitektúruppreisnin sé ópólitísk og að fallegur arkitektúr sé mál allra. Græna vöruskemman við Álfabakka, sem kölluð hefur verið „Græna gímaldið“, var valin ljótasta nýbyggingin.

Kvistgluggar nýbyggingarinnar við Hafnarstræti.
RÚV / Kristófer Óli Birkisson

Í öðru sæti í kosningu um fallegustu nýbygginguna var nýr Fjörður í Hafnarfirði. Hann hlaut 19,7% atkvæða. Uppbygging við Fjörð er einhver umfangsmesta framkvæmd í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi.

Tölvuteiknuð mynd af nýjum Firði.
Fjörður

Eyrarvegur 3-5 í nýja miðbænum á Selfossi hreppti þriðja sætið með 16,1% atkvæða. Vissulega nýbyggingar þar á ferð en þær byggja engu að síður á eldri húsum; svonefndu Amtmannshúsi sem stóð við Ingólfsstræti í Reykjavík og Hótel Akureyri sem stóð við Aðalstræti á Akureyri.

Næst kom Hverfisgata 100 í Reykjavík með 13,4% atkvæða og í fimmta sæti var Bergstaðastræti 18 í Reykjavík.

Heimild: Ruv.is