„Arfleifð Reita verður hús og innviðir sem standast tímans tönn.“
Þörfin fyrir húsnæði og innviði undir fólk og fyrirtæki hefur sjaldan verið brýnni.
Samfélagið glímir við skort á íbúðum og hjúkrunarheimilum og þörf er á stórátaki til að byggja nauðsynlega innviði. Ákall um vel staðsett og vel búið atvinnuhúsnæði fer vaxandi.
Áskorunin er stór en fyrir fyrirtæki í réttri stöðu blasir við risavaxið tækifæri.
Víðtækar breytingar
Fólki fjölgar á Íslandi og þjóðin eldist. Gangi spár eftir verða íbúar um 550 þúsund á næstu fimmtíu árum og gætu jafnvel orðið hálf milljón innan sextán ára. Gert er ráð fyrir að fjöldi Íslendinga yfir áttrætt tvöfaldist innan þess tíma. Á sama tíma og fólki fjölgar þá fækkar íbúum á hverju heimili. Hvar og hvernig fólk vinnur sín störf breytist og þarfir fyrirtækja fyrir húsnæði sömuleiðis. Þá eru ótalin áhrif markaðarins, breyttra lífshátta og búsetuþróunar.
Þessar breytingar kalla á annars konar húsnæði og meira framboð. Stærra samfélag þarf líka bætta innviði en þeir eru víða komnir til ára sinna. Við þurfum fólk sem kann að greina þessar þarfir, þróa lausnir til að mæta þeim og láta þær verða að veruleika.
Hugvit, reynsla og bolmagn
Reitir eru þekkingar- og þróunarfélag sem býr yfir hugviti, reynslu og bolmagni til að leiða þessa nauðsynlegu uppbyggingu. Okkar sýn er að styðja við blómstrandi atvinnulíf með hágæða atvinnuhúsnæði sem er sniðið að fjölbreyttri starfsemi. Við erum í leiðandi stöðu sem stærsta fasteignafélag landsins í atvinnuhúsnæði.
Okkur til vitnis er stærsta safn atvinnuhúsnæðis á Íslandi, sem Reitir hafa þróað og rekið lengi með góðum árangri. Félagið á og rekur um 150 fasteignir, sem telja samanlagt um 490 þúsund fermetra, og um 750 leigueiningar þar sem nær 500 leigutakar reka fjölbreytta starfsemi, allt frá stórfyrirtækjum og opinberum stofnunum til verslana, þjónustu og heilbrigðisstarfsemi.
Þetta er grunnurinn undir þá reynslu og þekkingu sem gerir okkur kleift að vera stórtæk. Auk þess að halda áfram að fjárfesta í kjarnastarfsemi félagsins höfum við kortlagt metnaðarfulla vaxtarstefnu til næstu ára. Við leggjum okkar að mörkum til að hýsa vaxandi þjóð með vel hönnuðum atvinnurýmum, íbúðum, borgarhverfum og hjúkrunarheimilum sem tryggja að samfélagið geti dafnað og skapa undirstöður undir framfarir um ókomna tíð.
Verkefnin tala sínu máli
Þetta er víðfeðmt og flókið verkefni sem kallar oft á samstarf einkageirans og hins opinbera. Það kallar líka á framkvæmdir sem standast kostnaðaráætlanir og tímamörk. Það kallar á aðila með reynslu, þekkingu, framtíðarsýn og fjárhagslega burði til að láta hjólin snúast. Reitir eru í kjörstöðu til að taka við boltanum og sækja fram.
Þróunarverkefni okkar sýna bæði vel heppnað samstarf við opinbera aðila og þá hugsjón sem leiðir Reiti áfram. Það á við um Korputún, Kringlureit og fleiri verkefni. Í öllum þessum verkefnum nálgast Reitir hönnun með heildstæðum hætti sem stuðlar að sjálfbærni og mannvænu umhverfi.
Þetta sést vel á nýju hverfi við Kringlureit. Þar munu 420 íbúðir, miðjusett torg og menningarhús mynda eina heild sem sækir innblástur til gömlu Reykjavíkur. Svæðið verður vottað samkvæmt ströngum kröfum BREEAM-staðalsins um vistvænar byggingar og skipulag.
Þessum verkefnum miðar afar vel. Á Korputúni er búið að leggja vegi og húsin byrjuð að rísa. Deiliskipulag Kringlureits er samþykkt og á nýju ári munu borgarbúar sjá fyrstu húsin rísa þar. Við Nauthólsveg, þar sem áður voru skrifstofur Icelandair, eru framkvæmdir nú þegar í fullum gangi við að umbreyta húsinu í 87-rýma hjúkrunarheimili.
Arfleifð sem stenst tímans tönn
Arfleifð Reita verður hús og innviðir sem standast tímans tönn og hýsa unga sem aldna, sprotafyrirtæki jafnt sem stærstu félög landsins. Verkefnið er og verður að skilja þarfir samfélagsins og mæta þeim í verki.
Við höfum þegar hafist handa eins og verkefnin sanna. Árangurinn hingað til gerir okkur bjartsýn á framtíðina en sú þekking og reynsla sem býr í starfsfólki Reita setur okkur í einstakt sóknarfæri til að tryggja framúrskarandi atvinnuhúsnæði og taka að okkur fleiri metnaðarfull uppbyggingarverkefni. Við þökkum okkar samstarfsaðilum fyrir árangursríkt samstarf á liðnu ári og hlökkum til að halda áfram að byggja undir framfarir, viðskiptavinum okkar og samfélaginu til hagsbóta.
Heimild: Vb.is












