Home Fréttir Í fréttum Bolungavík: Hafnað að stöðva samningagerð um Lundahverfi

Bolungavík: Hafnað að stöðva samningagerð um Lundahverfi

92
0
Framkvæmdir eru hafnar við nýja hverfið. Mynd: Finnbogi Bjarnason.

Kærunefnd útboðsmála hafnaði þann 17. desember að stöðva samningagerð um Lundahverfi í Bolungavík. Úrskurðurinn var birtur 30. desember sl.

Þann 30. september kærðu Keyrt og mokað ehf. og Búaðstoð ehf. þá ákvörðun Bolungavíkur-kaupstaðar að velja tilboð Þotunnar ehf. í útboði auðkenndu „Lundahverfi, Gatnagerð og lagnir.

Bolungavíkurkaupstaður bauð út í júlí gatnagerð, frágang lagna og göngustíga í Lundahverfi í Bolungavík. Um var að ræða gatnagerð heils hverfis. Heildarlengd gatna væri um 800 metrar, með gangstétt beggja megin við götuna nema í botnlöngum, um 840 metrar. Skyldi verktaki grafa út götustæði, fylla burðarhæfu efni í götustæði, þjappa og koma fyrir vatns- og fráveitulögnum og gatnalýsingu. Einnig væru innifaldar lagnir veitufyrirtækja og þá skyldu gangstéttar hellulagðar og götur undirbúnar undir malbikun.

Þrjú tilboð bárust í verkið

  1. Þotan ehf   289.488.100 kr.
  2. Fagurverk ehf  388.733.000 kr.
  3. Búastoð ehf / Keyrt og mokað ehf  275.913.929 kr.

Kostnaðaráætlun Verkkaupa: 314.551.607 kr.

Kaupstaðurinn hafnaði lægsta tilboðinu þar sem annar aðilinn að því hefði verið í vanskilum með opinber gjöld þegar tilboði var skilað og af þeirri ástæðu hefði tilboðið verið ógilt. Þá hefðu fleiri atriði ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna um að vera án skilyrða, og var þar sérstaklega nefnd yfirlýsing viðskiptabanka kærenda um verkábyrgð, sem hafi verið ófullnægjandi.

Bæjarráð Bolungavíkur tók tilboði Þotunnar 15. september og verksamningur var undirritaður 1. október.

Kærunefndin segir í úrskurði sínum að eftir að bindandi samningur hafi komist á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.

Í málinu liggi fyrir að verksamningur milli varnaraðila og Þotunnar ehf. hafi verið undirritaður. Hafi þannig komist á bindandi samningur og af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu kærenda um að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir.

Þá segir kærunefndin að úr öðrum kröfum aðila verði leyst síðar með úrskurði þegar þeir hafi skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.

Einkum eru það kröfur kærenda um álit nefndarinnar á skaðabótaskyldu sveitarfélagsins, um málskostnað sem út af standa og um að „allir samningar varnaraðila um jarðvinnu og snjómokstur, sem ekki hafi verið boðnir út, verði gerðir óvirkir“.

Heimild: BB.is