Home Fréttir Í fréttum Tugmilljarða framkvæmd í hættu

Tugmilljarða framkvæmd í hættu

103
0
Mynd: Norðurþing

Stjórn Framsýnar, stéttarfélags hefur sent frá sér ályktun vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 sem er í uppnámi vegna kæru Landverndar.

<>

Í ályktunni er þungum áhyggjum lýst yfir stöðu mála að tugmilljarða framkvæmd sé í uppnámi þrátt fyrir að framkvæmdaaðilar og sveitarfélögin á svæðinu hafi vandað til verks frá upphafi.

Þá er það harðlega gagnrýnt að einstaka Þingmenn hafi glaðst yfir stöðu mála vegna kæru Landverndar.

Forsaga málsins er sú að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi nýlega tvo úrskurði um stöðvun framkvæmda vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Úrskurðirnir eru til bráðabirgða á meðan nefndin fjallar um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.

Ályktun Framsýnar, stéttarfélags um framkvæmdir á Bakka við Húsavík er svo hljóðandi:

„Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir með sveitarfélaginu Norðurþingi sem lýsir yfir þungum áhyggjum af  þeirri stöðu sem upp er komin varðandi framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1,en henni er ætlað að flytja orku til iðnaðarsvæðisins á Bakka. Öll hönnun svæðisins og uppbygging innviða hefur miðað að því að á næstu árum byggist þar upp iðnaðarsvæði með nokkrum fyrirtækjum sem nýta muni orku og línumannvirki svæðisins. Frá upphafi hefur verið litið á fyrri áfanga kísilvers PCC BakkiSilicon sem einungis fyrsta áfanga í þeirri uppbyggingu. Mjög miklir samfélagslegir og fjárhagslegir hagsmunir eru undir í því að niðurstaða fáist í málið á allra næstu dögum.

Þá telur Framsýn það ekki boðlegt og reyndar sorglegt að ákveðnir þingmenn skuli gleðjast sérstaklega yfir því að framkvæmdin á Bakka á vegum PCC skuli vera komin í uppnám eftir kæru Landverndar. Tugmilljarða framkvæmd er í hættu þrátt fyrir að framkvæmdaaðilar og sveitarfélögin á svæðinu hafi vandað mjög til verks allt frá upphafi í fullu samráði við hlutaðeigandi aðila.“

Heimild: Dagskrain.is