Íbúum í Ölfusi hefur fjölgað um 40 prósent á síðustu átta árum og eru nú komnir á fjórða þúsund. Í dag eru 270 íbúðir í byggingu í Þorlákshöfn.
Það er allt að gerast í Þorlákshöfn eins og stundum er sagt en það er þéttbýlisstaðurinn í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þar er byggt svo mikið, aðallega fjölbýlishús að aldrei annað eins hefur sést í sögu sveitarfélagsins.
„Í dag eru 270 íbúðir í byggingu. Íbúðarhúsnæði hefur fjölgað um 70% síðan 2018 og íbúum um 40%,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss.
Þetta eru svakalegar tölur?
„Þetta er það, þetta er svolítið eins og maður sé bæjarstjóri á Siglufirði í gegnum Síldarævintýrið, þannig líður mér oft og þetta er bæði ofboðslega gott fyrir samfélagið og fyrst og fremst er það það, sem að gerir dagana skemmtilega en auðvitað er þetta líka bara forréttindi að fá að vinna við samfélag í svona miklum vexti,“ segir Elliði.
Elliði segir að innviðir sveitarfélagsins hafi ekki gefið eftir með þessari miklu uppbyggingu, það sé til dæmis nýbúið að opna nýjan leikskóla í Þorlákshöfn og þá hafi álögur á íbúa ekki aukist.

Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Við erum að fara að stækka grunnskólann, byrjum á því núna í janúar og febrúar. Við erum að fjölga íbúðum fyrir aldraða, við erum að malbika götur og við erum að stækka höfnina og svo er bara leggjast allir á þá árar að gera samfélagið hér skemmtilegt og ekki skiptir það minna máli en allt hitt,“ segir bæjarstjórinn.
En hvaða fólk er aðallega að flytja í Ölfusið?
„Það er það ofboðslega mikið af ungu fólki út stærri samfélögum, sem leita hingað oft með tvö til þrjú börn á leik- og grunnskólaaldri og þau koma af því að hér er húsnæði fáanlegt og hér er þjónustustigið hátt,“ segir Elliði.
Heimild: Visir.is












