Home Fréttir Í fréttum Seðlabankinn óttast breytingar á hlutdeildarlánum

Seðlabankinn óttast breytingar á hlutdeildarlánum

32
0
Með breytingum á lögum um hlutdeildarlán er ætlun stjórnvalda að vinna með verktökum að því að byggja íbúðir sem henti þessum hópi. RÚV – Ragnar Visage

Seðlabanki Íslands óttast að fyrirhugaðar breytingar á lögum um hlutdeildarlán hafi slæm áhrif á efnahagslegan stöðugleika. Lagabreytingunni er ætlað að gefa fleirum tækifæri á að nýta sér hlutdeildarlán til fasteignakaupa.

Frá 2020 hafa hlutdeildarlán staðið þeim til boða sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, hafa ekki átt íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.

Markmið lánanna er að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði. Í upphafi var gert ráð fyrir að veitt yrðu 4-500 hlutdeildarlán árlega í allt að tíu ár en þróunin hefur orðið önnur.

Mest hafa verið veitt 300 lán árið 2021 og heildarútlán nema um 12 milljörðum, en gert var ráð fyrir 40 milljörðum í úrræðið. Meðal ástæðna sem eru nefndar fyrir því er skortur á húsnæði sem uppfyllir skilyrði lánanna.

Ríkisstjórnin stefnir að breytingum á hlutdeildarlánunum til að gera kerfið fyrirsjáanlegra og skilvirkara.

Meðal breytinga er hækkun tekjumarka og lánshlutfall þannig að úrræðið nýtist stærri hópi. Stjórnvöld ætla jafnframt að vinna með verktökum að því að byggja íbúðir sem henti þessum hópi.

Óttast að úrræðið nái til fleiri en þeirra sem þurfa

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögnum um frumvarpið, meðal annars frá Seðlabanka Íslads.

Seðlabankinn óttast að breytingarnar muni hafa áhrif á hækkun húsnæðisverðs sem geti haft áhrif á efnahagslegan stöðugleika.

Ef lánin standi þeim til boða sem hafa meira á milli handanna nái það til mun fleiri en þeirra sem raunverulega þurfi á því að halda.

Seðlabankinn leggur til að frumvarpið verði endurskoðað með tilliti til þess að viðhalda markmiðum laga um aðstoð við afmarkaðan hóp og að ekki valda óæskilegum eftirspurnaráhrifum á íbúðamarkaði.

Heimild: Ruv.is