
Eignin inniheldur 83 herbergi.
Dótturfélag Icelandair, IGS fasteignir ehf., hefur selt fjölbýlishús að Keilisbraut 751 á Ásbrú í Reykjanesbæ fyrir 720 milljónir króna, samkvæmt kaupsamningi sem var undirritaður í lok nóvember.
Kaupandi er leigufélagið Icelandic Home ehf. sem á aðliggjandi blokk að Keilisbraut 750.
Keilisbraut 751 skiptist í þrjár hæðir samtals 83 herbergi. Samtles nemur fermetrafjöldi 2.262 fermetrum.
Á hverri hæð er eldhússaðstaða, þvottahús og setustofa, að því er segir í fasteignaauglýsingu. Flest eru herbergin íbúðarherbergi með tveimur svefnherbergjum í hverju aðskildu rými ásamt baðherbergi og geymslur tvær. Tekið var fram að möguleiki væri að útbúa tveggja herbergja íbúðir úr þessum rýmum.
Keilisbraut 751 var bókfærð á 164 milljónir króna í árslok 2024 í ársreikningi IGS fasteigna. Félagið á áfram Keilisbraut 748 og Suðurbraut 759 að Ásbrú.
IGS fasteignir eru í eigu Iceeigna, dótturfélags Icelandair, sem á fasteignir sem bókfærðar voru á 13 milljarða króna í lok síðasta árs.
Eignasafn Icelandic Home ehf. taldi um 440 útleigueiningar, sem flestar eru staðsettar á Ásbrú, fyrir ofangreind kaup. Viðskiptablaðið fjallaði í vor um áhuga félagsins að reisa nýtt 90-180 rýma hjúkrunarheimili miðsvæðis á Ásbrú.
Eignir Icelandic Home voru bókfærðar á 4,4 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um einn milljarður króna.
Stærstu hluthafar Icelandic Home, samkvæmt síðasta ársreikningi, eru Vallarvinir ehf., félag Skúla Skúlasonar og Guðbjargar Astrid Skúladóttur, með 38,1% hlut og Global fjárfestingarfélag ehf., félag Theodórs Siemsen Sigurbergssonar, með 16,3% hlut.
Þá áttu félögin Gráklettur ehf., í eigu Vignis Óskarssonar, Glóra hf., í eigu Þorleifs Björnssonar, og Melás ehf., í eigu Karls Finnbogasonar, 15,2% hlut hvert.
Nálgast má myndir af fasteigninni hér.
Heimild: Vb.is











