Home Fréttir Í fréttum Vill koma hreyfingu á uppbyggingu á ríkislóðum

Vill koma hreyfingu á uppbyggingu á ríkislóðum

4
0
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaráðherra segir markmiðið að ýta undir skipulag á fjölda lóða sem ríkið er eigandi að á höfuðborgarsvæðinu á komandi misserum.

Í síðustu viku gerði ríkið samkomulag við Garðabæ um uppbyggingu á Vífilsstaðasvæðinu en Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir fjölda annarra sveitarfélaga í viðræðum við ríkið um nokkra reiti til viðbótar.

„Það er markmið okkar að ná betri hreyfingu á skipulag þessara reita sem ríkið á hingað og þangað,“ segir Daði. Tekur hann fram að Vífilsstaðalandið sé fyrsta samkomulagið, en að þau verði vonandi fleiri fyrr en síðar.

Úr húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Sjá má lóðir ríkisins á meðfylgjandi korti. Stærstu lóðirnar eru Keldnaholt (austan megin við Grafarvog) og Flugvallarsvæðið. Korpureiturinn er þó einnig nokkuð stór, en hann er norðan við Keldnaholt og Korputorg. Borgin og ríkið ræða nú um uppbyggingu á nokkrum þessara reita, en aðrar lóðir eru þó í fullri notkun og ólíklegt að þar verði einhver frekari uppbygging. Kort/Reykjavíkurborg

Í viðræðum við Reykjavík og Reykjanesbæ

Hins vegar hefur samhliða því átt sér stað umræða við fleiri sveitarfélög, svo sem Reykjavík. „Á sama tíma höfum við átt í mjög uppbyggilegu samtali við Reykjavíkurborg og höfum svo verið í samtali við önnur sveitarfélög, eins og Reykjanesbæ, um skipulagsmál þar, en ríkið er stór landeigandi þar.“

Spurður nánar út í þessa reiti nefnir Daði að þar á meðal sé Vegagerðarreiturinn við Guðrúnartún, Laugarnesreiturinn þar sem Listaháskólinn stendur, Landhelgisgæslureiturinn við Seljaveg og land sem ríkið á á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og kallast Korpa.

Jafnframt segir Daði að samtal hafi átt sér stað við fleiri sveitarfélög en að sú vinna sé komin mun styttra á veg.

Almar Guðmundsson, Daði Már Kristófersson og Margrét Bjarnadóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, við Vífilsstaði að undirritun lokinni í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

1.000 íbúðir + Keldnaholt og Korpa

Í húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2025-2034 má sjá fleiri reiti sem borgin tekur fram að hafi verið til skoðunar með ríkinu. Ef horft er fram hjá Korpusvæðinu og Keldnaholti, en það síðarnefnda er hluti af framlagi ríkisins til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og gert er ráð fyrir að byggðar verði tæplega 5.900 íbúðir, þá er áætlað að hægt sé að byggja tæplega 1.000 íbúðir á reitunum.

Um er að ræða Listaháskólareitinn, Vegagerðarreitinn og Landhelgisgæslureitinn, sem allir voru nefndir áður, og til viðbótar Borgarspítalareit og Þjóðskjalasafnsreit.

Stærðir og áætlaður fjöldi íbúða á hverjum þessara reita eru eftirfarandi:

  • Borgarspítalareitur – 5 ha: 255 íbúðir
  • Listaháskólareitur (SS-reitur) – 2,3 ha: 225 íbúðir
  • Vegagerðarreitur (Guðrúnartúnsreitur) – 1,4 ha: 200 íbúðir
  • Landhelgisgæslureitur – 0,3 ha: 75 íbúðir
  • Þjóðskjalsafnsreitur – 1,4 ha: 200 íbúðir
  • Keldur og Keldnaholt – 117 ha: 5.800 íbúðir

Korpulandið, sem hefur einnig verið kallað Rala-landið, er svo 18,5 hektarar að stærð en ekki hefur verið settur niður áætlaður fjöldi íbúða þar eða hvort það sé hugsað sem atvinnusvæði, en það er rétt norðan við Korputorg.

Heimild: Mbl.is