Home Fréttir Í fréttum Íbúar Laugardals og Grafarvogs vilja Sundagöng, ekki brú

Íbúar Laugardals og Grafarvogs vilja Sundagöng, ekki brú

7
0
Íbúar Grafarvogs gagnrýna að ekki sé til skoðunar að grafa göng lengra en að Gufunesi. Efla – Efla Verkfræðistofa

Vegagerðin vill ráðast í framkvæmdir við Sundabraut á næsta ári. Enn á eftir að velja hvort gerð verða göng eða brú milli Laugardals og Grafarvogs.

Fyrstu hugmyndir um að einfalda leiðina milli Sæbrautar og Kjalarness ná aftur til 1975. Þá var talað um Kleppsvíkurbrú í aðalskipulagi Reykjavíkur.

Markmiðið er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta, stytta vegalengdir og bæta tengingar milli borgarinnar og landshluta í norður og vestur.

Framkvæmdin myndi létta á umferð á Vesturlandsvegi gegnum borgina og Mosfellsbæ. Leiðin milli Kjalarness og borgarinnar myndi styttast um níu kílómetra með tilkomu Sundarbrautar. Miðað við umferðarástandið í dag myndu ferðir um þessa leið styttast um 12 mínútur að jafnaði, meira á annatíma en minna utan annatíma.

Með tilkomu Sundabrautar er jafnframt gert ráð fyrir að umferð um Mosfellsbæ, Ártúnsbrekkur og Grafarvog léttist til muna

Hafa áhyggjur af aukinni umferð

Íbúar í Grafarvogi og Laugardal óttast þó áhrifin á sín hverfi þegar umferðin breytir um farveg. „Aðaláhyggjurnar eru aukinn gegnumakstur gegnum hverfið, það er alveg ljóst,“ segir Lilja Sigrún Jónsdóttir, formaður íbúasamtaka Laugardals.

Hún saknar þess að ekki hafi verið gert lýðheilsumat og áhrif aukinnar umferðar tekin með í reikninginn. Hún segir göng betri kost, þrátt fyrir kostnaðinn, þar sem þau minnki hávaðamengun. „Óttinn er sá að þetta verði ekki metið en íbúar muni gjalda og íbúar í hverfinu hafa beinlínis lýst sér sem þolendum.“

Íbúar í Grafarvogi segja sömuleiðis að sterk rök séu fyrir því að ráðast í Sundagöng.

Vilja göng alla leið

Ásta Þorleifsdóttir er náttúrufræðingur og var fulltrúi íbúa í Grafarvogi í samráðshópi um Sundabraut. „Ásýnd, hljóðvist, lífsgæði fólks, efnahagsleg rök og síðast en ekki síst náttúruvernd, allar hinar lífverurnar sem deila borgarlandinu með okkur.“ telur hún upp sem rök fyrir því að vanda til verka við Sundabraut. Hún segir íbúa ekki mæla gegn framkvæmdinni en það þurfi að taka tillits til fleira en króna og aura þegar útfærslan er valin.

Ásta vekur sérstaklega athygli á því hvaða áhrif vegurinn um Gufunesið hefði á íbúa þar. „Brautin mun liggja nánast við gluggana þeirra og umferðarhávaðinn verður náttúrulega gríðarlegur af átján þúsund bíla umferð, sem að miklu leyti er þar að auki þungaflutningar.“

Hún kallar ekki bara eftir göngum yfir Kleppsvík heldur líka lengra austur fram hjá náttúruperlum Grafarvogsbúa. Þar séu bæði vinsæl útivistarsvæði og fjölbreytt lífríki .

„Það eru skýr skilaboð frá íbúum í Grafarvogi að við viljum göng og við viljum göng alla leið,“ segir Ásta.

Heimild: Ruv.is