Það styttist í opnun nýrra verslana í Firði og þegar eru lúxusíbúðirnar þar komnar í sölu. Valdimar Víðisson segir breytta ásýnd hjarta Hafnarfjarðar efla miðbæinn.
Aukið líf að færast í fjörðinn
Glæsileg sýn blasti við bæjarstjóra þegar hann heimsótti Fjörð á dögunum og skoðaði uppbygginguna sem þar er. Það styttist í opnun nýrra verslana og þegar eru lúxusíbúðirnar, samtals 31, þar komnar í sölu. Valdimar Víðisson segir breytta ásýnd hjarta Hafnarfjarðar efla miðbæinn.

„Þetta er stórt skref fyrir miðbæinn. Hér verður til umhverfi sem tengir saman gamla og nýja tíma og gerir miðbæinn að enn stærra aðdráttarafli fyrir íbúa og gesti. Miðbær Hafnarfjarðar hefur alltaf haft einstakan sjarma, en með þessari uppbyggingu fáum við nýtt líf og spennandi blöndu af búsetu og þjónustu sem styrkir allan bæinn,“ segir Valdimar.
Uppbygging Fjarðar hófst fyrir tæpum þremur árum með skóflustungu eftir margra ára undirbúning. Þar verða:
- 4.250 m² íbúðarhúsnæði
- 1.100 m² hótelíbúðir, 18 talsins
- 1.600 m² verslunarhúsnæði
- 550 m² margmiðlunarsetur bókasafnsins
- 1200 m² bílakjallari
- Samtals 8.700 m²
Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðar, fylgdi bæjarstjóra um byggingarnar þennan dag. „Uppbyggingin gengur vel,“ segir hann. Áætlað er að verslunarkjarninn opni fyrir jól. Íbúðirnar eru nýkomnar í sölu og áhuginn er mikill. Við höfum aðeins haft þær í sölu í um hálfan mánuð og ég get sagt að salan fer vel af stað,“ lýsir hann.

Bókasafnið í Fjörð
Valdimar er sérlega spenntur fyrir flutningi bókasafns Hafnarfjarðar yfir í Fjörðinn, þar sem það breytist í margmiðlunarsetur fyrir Hafnfirðinga og gesti þeirra. „Bókasafnið verður hjarta menningar og fræðslu í bænum. Það verður lifandi vettvangur fyrir alla aldurshópa, staður þar sem fólk hittist, lærir, skapar og nýtur samveru.“

Bæjarstjóri hefur farið víða um bæinn og heimsótt fyrirtæki og kynnt sér starfsemina. Hann segir mikilvægt að heyra hvað brennur á þeim sem reka fyrirtæki í Hafnarfirði. „Það skiptir mig miklu máli að heimsækja fyrirtækin í bænum og kynnast því fjölbreytta og öfluga starfi sem þar fer fram. Þar sér maður kraftinn, hugvitið og samvinnuna sem gera Hafnarfjörð að þeim einstaka stað sem hann er.“
Heimild: Hafnarfjordur.is