Laxey hyggst auka umfang framleiðslugetu úr 11.500 tonnum í 42.000 tonn á ári og reisa seiðaeldisstöð í Viðlagafjöru.
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur tekið jákvætt í erindi Laxeyjar ehf. um að stækka athafnasvæði félagsins í Viðlagafjöru.
Frá þessu segir á vef Eyjafrétta sem vitna til fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja og skipulagslýsingar vegna breytinga sem ráðast þarf í á aðalskipulagi svo af stækkuninni geti orðið. Laxey hyggst auka umfang framleiðslugetu úr 11.500 tonnum í 42.000 tonn á ári og reisa seiðaeldisstöð í Viðlagafjöru.
„Stækkun á athafnasvæði stöðvarinnar til norðurs er ætluð fyrir nýja seiðaeldisstöð, yfirbyggð kerjahús, og mögulega uppbyggingu fyrir hrognaframleiðslu. Seiðaeldisstöð verður byggð eftir svipuðu sniði og seiðastöð félagsins, sem er nú þegar starfrækt í Friðarhöfn.
Áætlað er að seiðaeldisstöðin verði um 8.000 m2 og eru tvær staðsetningar til skoðunar fyrir stöðina, norðan við núverandi athafnasvæði eða vestan,“ segir í skipulagslýsingunni.
Heimild: Vb.is