Home Fréttir Í fréttum Samningur um brúarsmíði i Gufudalssveit í höfn

Samningur um brúarsmíði i Gufudalssveit í höfn

6
0
Verkið felur í sér byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Ríkisútvarpið ohf – Jóhannes Jónsson

Vegagerðin undirritaði samning við norska fyrirtækið LNS um brúarsmíði í Gufudalssveit í síðustu viku. Samningsverðið er um 200 milljónum króna yfir áætluðum kostnaði.

Samningur milli Vegagerðarinnar og norska fyrirtækisins Leonhard Nilsen og Sönner um brúarsmíði í Gufudalssveit er í höfn. Samningar höfðu tafist eftir að útboðið var kært til úrskurðanefndar útboðsmála.

Verkið felur í sér byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Leonhard Nilsen gerði þriðja lægsta tilboðið í verkið.

Tilboð voru opnuð í lok apríl og þegar farið hafði verið yfir fjárhagslegar forsendur ákvað Vegagerðin að semja við norska fyrirtækið frekar en þá tvo sem buðu lægst.

Lægstbjóðandi kærði málið til úrskurðarnefndar útboðsmála, sem veitti síðan Vegagerðinni leyfi til að halda áfram með samninga í lok september.

„Sem betur fer þá erum við nú langt komin með þetta, það er ein brú eftir og verður boðin út einhverntímann í kringum áramótin. Þannig að það er bara mjög jákvætt að geta klárað þennan samning,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Samningsverðið hljóðar upp á tæpa tvo milljarða króna – sem er um tvö hundruð milljónum króna yfir áætluðum kostnaði. Lokaáfangi verksins verður boðinn út í lok þessa árs., 250 metra löng brú yfir Djúpafjörð ásamt lokafrágangi. Eftir það verður leiðin vestur um 22 kílómetrum og hálftíma styttri, klædd bundnu slitlagi og á láglendi.

„Samgönguáætlun fer fyrir þingið í haust og þá náttúrulega kemur forgangsröðun stjórnvalda í ljós en þessi verkefni sem við erum með núna eru að klára þessa leið um Reykhólasveitina og yfir Dynjandisheiðina og það erum við bara að gera. Svo verður bara að koma í ljós hvernig menn forgangsraða restinni.“

Heimild: Ruv.is