Home Fréttir Í fréttum Hörð samkeppni um lóðir og íbúðir í Þorlákshöfn

Hörð samkeppni um lóðir og íbúðir í Þorlákshöfn

45
0
Elliði segir að honum líði oft eins og bæjarstjóra Siglufjarðar á tímum síldarævintýrsins. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Hátt í 270 íbúðir eru í byggingu í Þorlákshöfn en bæjarstjóri Ölfuss spáir því að íbúafjöldi verði kominn upp í fimm þúsund eftir tíu ár.

Nýjar íbúðir í Þorlákshöfn seljast nú eins og heitar lummur en Stofnhús byggir nú tvær blokkir í bæjarfélaginu og fór önnur þeirra í sölu um daginn. Sex íbúðir seldust um leið, þar á meðal ein þakíbúð, en íbúðaverð í Þorlákshöfn er um 20% lægra en í Reykjavík.

Til samanburðar eru fleiri en þúsund fullbúnar íbúðir tilbúnar til sölu á höfuðborgarsvæðinu en erfiðlega hefur gengið að selja sökum verðlags og íþyngjandi reglugerða.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss segir í samtali við Viðskiptablaðið að Þorlákshöfn sé að vaxa mjög hratt og að sá vöxtur megi rekja fyrst og fremst til hás þjónustustigs sveitarfélagsins, sterkra innviða og auknum fjárfestingum.

„Það hefur gengið virkilega vel hjá okkur og ég hef stundum orðað það þannig að mér líður eins og ég sé bæjarstjóri á Siglufirði í síldarævintýrinu. Við teljum líka að það séu allar forsendur fyrir því að hér munu búa um fimm þúsund íbúar í Ölfusi eftir tíu ár.“

Hann segir að verðmætaskapandi verkefni eins og laxeldi og stækkun hafnarinnar hafi hjálpað til við að auka umsvif bæjarins en telur að þjónustustigið hafi líka haft mikil áhrif á íbúafjölgun Þorlákshafnar.

„Við vorum núna í seinustu viku að opna nýjan leikskóla þrátt fyrir að hér sé enginn biðlisti. Nýi leikskólinn mun þá taka á móti þeim börnum sem munu flytja í þessar íbúðir sem nú er verið að selja. Við erum líka að fara að stækka grunnskólann, bæta nýjum rennibrautum við sundlaugina og opna nýjar dagdeildir og hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara.“

Elliði segir að meðalaldur Þorlákshafnar sé að lækka en hlutfall eldri borgara þar er um 10%. „Venjuleg fjölskylda sem flytur í Ölfus og sérstaklega til Þorlákshafnar er ungt par með tvö til þrjú börn á leik- og grunnskólaaldri.“

Líta á lóðir sem hilluvöru
Það eru um 270 íbúðir í byggingu í Þorlákshöfn í dag en Elliði segir að bæjarstjórnin hafi undanfarið unnið hörðum höndum að nýju lóðaskipulagi sem sé nú tilbúið og geri ráð fyrir 1.118 íbúðum.

Í Ölfusi hefur sú leið verð farin að nýta skipulagsmál til að stuðla að blandaðri íbúasamsetningu. © Skjáskot

„Það er stefna sveitarfélagsins að lóðir séu hilluvara og ef fólk vill byggja þá fær það lóð. Eftirspurnin hefur hins vegar verið meiri en framboðið þrátt fyrir vaxandi lóðaframboð. Við viljum líka passa upp á að það sé fjölbreytt úrval af lóðum en 52% eru sérbýli og 48% eru fjölbýli.“

Að mati Elliða eru sífellt fleiri að leita til annarra sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og telur að það sé ekkert sem hafi leitt til meiri dreifingar á landsbyggðinni en þétting byggðar.

Hann segir að það búi nú jafn margir í Ölfusi, Hveragerði og Árborg og búa á Akureyri. Svæðið sé líka orðið það sjálfbært að íbúar einfaldlega leggi það ekki á sig að fara í umferðina í Reykjavík ef þeir komast hjá því.

„Það er svo sérstakt að verkalýðsfélögin hafa barist hörðum höndum fyrir styttingu vinnuvikunnar en svo þegar vinnuvikan er stytt þá eyða allir þeim tíma fastir á rauðum ljósum.“

Heimild: VB.is