Home Fréttir Í fréttum Stórfelld uppbygging í Garðabæ

Stórfelld uppbygging í Garðabæ

9
0
Uppbrot bygginga býður upp á tækifæri fyrir þakgarða og þaksvalir. Ljósmynd: Aðsend mynd

Í Arnarlandi, sem er um níu hektara landspilda, verða reistar allt að 451 íbúð sem eru alls 50 þúsund fermetrar. Landið er í rúmlega helmingseigu Arion banka en viðræður eru í gangi um sölu til félags í eigu Þorvaldar Gissurarsonar, eiganda ÞG Verks.

Mjög umsvifamikil uppbygging er fyrirhuguð á um níu hektara landspildu í Garðabæ, á norðanverðum Arnarneshálsi sem gengur undir nafninu Arnarland. Deiliskipulag Arnarlands var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 6. mars sl. Í Arnarlandi er heimilt að reisa allt að 451 íbúðaeiningu eða sem nemur alls um 50 þúsund fermetrum af íbúðarhúsnæði. Þar að auki er heimilt að reisa allt að 5.400 fermetra af atvinnuhúsnæði á svæðinu.

Arnarland ef., félagið sem heldur utan um landið, er í 51% eigu Arion banka og 49% eigu Fasteignafélagsins Akurey ehf., sem Kristján Jóhannsson og Jóhann Ingi Kristjánsson eiga til helminga. Hluti byggingaréttar til atvinnuhúsnæðis hefur þegar verið seldur frá félaginu.

Allt hlutafé Arnarlands ehf. var sett í söluferli í lok júní en eignarhlutur Arion banka í félaginu var bókfærður á 1,6 milljarða króna í lok síðasta árs. Bankinn færði upp bókfært virði eignarhlutarins á fyrsta ársfjórðungi og voru nettó áhrif eftir skatt af matsbreytingu á eignum Landeyjar, félagsins sem heldur utan um eignarhlut bankans, á samstæðu Arion um 1,1 milljarður króna.

Fyrir um þremur vikum tilkynnti Arion banki að eigendur Arnarlands hafi ákveðið að ganga til samningaviðræðna við fasteignaþróunarfélagið Arcus ehf., um kaup á öllu hlutafé Arnarlands. Ákvörðunin hafi verið tekin í kjölfar söluferlis sem byggði á útboðsfyrirkomulagi. Arcus er í eigu Þorvaldar Gissurarsonar og er systurfélag byggingaverktakafyrirtækisins ÞG Verktakar sem hann stofnaði árið 1998.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

26.500 fermetra heilsuklasi
Arnarland afmarkast af Hafnarfjarðarvegi til vesturs, Arnarnesvegi til suðurs, Fífuhvammsvegi til austurs og sveitarfélagsmörkum Garðabæjar og Kópavogs til norðurs. Hverfið er mótað í samræmi við fyrirliggjandi stefnur og áætlanir m.a. um samþættingu skipulags byggðar og samgangna, þróun þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu, uppbyggingu á samgöngu- og þróunarás og þéttingu byggðar.

Þá er uppbygging í Arnarlandi einnig í samræmi við stefnu Garðabæjar um hagkvæma uppbyggingu íbúahverfa þar sem hugað er að heilnæmu umhverfi, góðum samgöngum og fjölgun lóða undir íbúðabyggð. Í Arnarlandi er lögð áhersla á nærþjónustu og fjölbreytta starfsemi svo úr verði umhverfi sem styður við aukin lífsgæði jafnt fyrir íbúa hverfisins sem og nágranna.

Þetta kemur fram á heimasíðu verkefnisins þar sem jafnframt segir að gert sé ráð fyrir að í Arnarlandi rísi borgarumhverfi með lifandi starfsemi og góðum íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Byggingar verði þriggja til sex hæða, lægri byggingar nær Fífuhvammsvegi og hærri byggingar nær Hafnarfjarðarvegi, kennileitisbygging næst Hafnarfjarðarvegi verði allt að 7 hæðir.

Íbúðabyggð í Arnarlandi muni aðlaga sig að hæð, landhalla og byggðamynstri nærliggjandi fjölbýlishúsabyggðar í Garðabæ og Kópavogi. Hæðir íbúðabyggðar verði tvær til fimm en einstaka byggingar sex hæðir. Það sé m.a. til þess að styrkja tengsl milli notkunar innan bygginga og mannlífs í göturými, torgum og inngörðum. Mismunandi hæðir séu nýttar til þess að opna á sólarljós í inngörðum, íbúðum og opna á sjónása milli bygginga. Uppbrot bygginga bjóði upp á tækifæri fyrir þakgarða og þaksvalir.

Heimild: Vb.is