Tilboð í smíði Fossvogsbrúar voru opnuð síðdegis í gær og bárust tvö tilboð í verkið. Betri samgöngur buðu brúarsmíðina út á Evrópska efnahagssvæðinu í maí síðastliðnum en fyrri hluti framkvæmda, gerð sjóvarna og landfyllinga á Kársnesi í Kópavogi og í Reykjavík, hefur staðið yfir síðan í janúar 2025. Áætlaður kostnaður við brúarsmíðina var tæpir sex milljaðar króna.
Tilboðin eru eftirfarandi:
Ístak hf. & Per Aarsleff AS – Istak-Aarsleff JV
Tilboðsverð m/vsk 7.898.532.093
Depenbrock Scandinavia ApS & Depenbrock Ingengieurwasserbau GmbH & Co. KG – JV Depenbrock Fossvogur
Tilboðsverð m/vsk 8.221.364.124
Áætlaður kostnaður við brúarsmíðina var 5.960 milljónir króna og eru tilboðin því bæði umfram áætlun eða sem nemur 33% og 38%. Framundan er ítarleg yfirferð á tilboðunum og samanburður við kostnaðaráætlun.
Þess má geta að verksamningur í sjóvarnir og landfyllingar sem gerður í janúar var 70% af áætluðum verktakakostnaði.
Brúin Alda verður 270 metra löng og allt að 17 metra breið. Hún verður gerð úr stálbitum í fimm haflengdum en brúarstólparnir og undirstöðurnar verða úr steinsteypu og verða boraðar niður á fastan berggrunn til að tryggja stöðugleika brúarinnar. Á Fossvogsbrú verða sérstakir útsýnispallar sem kallast álfasteinar, auk lýsingar í handriðum og undir brúargólfi.
Fossvogsbrú er hluti af fyrstu lotu Borgarlínunnar og mun tengja sveitarfélögin Reykjavík og Kópavog yfir Fossvog. Brúin er ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum auk forgangsakstri lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs.
Gert er ráð fyrir að Fossvogsbrú verði tilbúin til notkunar haustið 2028.
Heimild: Betri Samgöngur ohf.