Home Fréttir Í fréttum Hjúkrunarheimili í smíðum ekki brunatryggt þegar eldur kviknaði í sumar

Hjúkrunarheimili í smíðum ekki brunatryggt þegar eldur kviknaði í sumar

115
0
Slökkviliðsmenn og verktakar rífa upp þakið á nýbyggingu við hjúkrunarheimilið Skjólgarð eftir brunann í sumar. Rífa þurfi upp um 70 fermetra af þakinu. Það hefur gengið á ýmsu í byggingu á nýju og stækkuðu hjúkunrarheimili á Hornafirði og Húsheild-hyrna segir viðbúið að gera þurf verkið upp með aðstoð lögfræðinga. Aðsend mynd – Húsheild-Hyrna

Nýtt hjúkrunarheimili sem er í smíðum á Hornafirði var ekki brunatryggt þegar eldur kviknaði þar í sumar. Forstjóri Framkvæmdasýslunnar segir að ríkisbyggingar séu almennt ekki tryggðar fyrr en þær eru tilbúnar en verktakinn segir það rangt.

Nýbygging við hjúkrunarheimili á Hornafirði var ekki brunatryggð þegar eldur kviknaði þar í lok júlí. Forstjóra framkvæmdasýslu ríkiseigna og forstjóra verktakafyrirtækisins sem byggir ber ekki saman um hvort trygging hafi átt að vera til staðar.

Eldur kviknaði í þaki nýbyggingar við hjúkrunarheimilið Skjólgarð á Hornafirði 30. júlí. Verið var að bræða tjörupappa á þakið þegar eldur varð laus. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðsstjóra Hornafjarðar logaði á milli klæðninga og brann pappinn á neðra þaki. Dæla þurfti úr slökkvitækjum og líka vatni úr slökkvibíl undir efra þakið og rífa hluta þess burt til að hindra að eldurinn breiddist út. Hann áætlar að rífa hafi þurft upp um 70 fermetra af þakinu og verktakinn áætlar að tjónið hafi numið um 20 milljónum.

Ríkið kaupi ekki valfrjálsar tryggingar

Óskar Jósefsson, forstjóri framkvæmdasýslu ríkiseigna, segir ríkisbyggingar ekki brunatryggðar meðan þær eru í smíðum heldur aðeins eftir lokaúttekt og brunabótamat. Ríkið kaupi almennt ekki valfrjálsar tryggingar svo sem brunatryggingu á framkvæmdatíma. Umsvif ríkisins eru svo mikil að segja má að ríkið sé sitt eigið tryggingarfélag. Brunatrygging húseigna eftir lokaúttekt sé hins vegar lögboðin. Ríkið bauð út brunatryggingu fyrir allar sínar fasteignir um síðustu áramót og samdi við Vörð um að brunatryggja næstum 2200 eignir fyrir hátt í 560 milljarða.

Brunatrygging á framkvæmdatíma hafi ekki verið valfrjáls

Athygli vekur að forstjóra framkvæmdasýslunnar og forstjóra verktakafyrirtækisins Húsheildar-Hyrnu sem byggir hjúkrunarheimilið ber ekki saman um þetta. Ólafur Ragnarsson, forstjóri Húsheildar-Hyrnu, segir að í bréfi frá Framkvæmdasýslunni hafi hún reynt að láta fyrirtækið bera tjónið og sagt vinnubrögð ekki í lagi sem Húsheild Hyrna hafi hrakið. Á fundi 13. ágúst hafi framkvæmdasýslan neitað að afhenda upplýsingar um tryggingu en síðar viðurkennt að nýbyggingin væri ekki brunatryggð í samræmi við kröfur.

Ólafur lét fréttastofu í té afrit af tölvupóstum og skjáskot af fundargerðum um þetta og líka póst frá tryggingafélaginu Verði þar sem fram kemur að framkvæmdasýslan keypti þar brunatryggingu 14 dögum eftir brunann, degi eftir að hún neitaði að afhenda tryggingarskírteinið. Í útboðs- og samningsskilmálum verksins standi að ríkiseignum beri að kaupa brunatryggingu á framkvæmdatíma samkvæmt byggingarstaðli.

Heimild: Ruv.is