
Hönnun á 26 borgarlínustöðvum og aðgengi að þeim er framundan en borgarlínan á að að vera komin að fullu í rekstur árið 2031.
Stöðvanetið mun ná allt frá Ártúnshöfða í Reykjavík í Hamraborg í Kópavogi en liggja í gegnum miðborgina.
Yngvi Karl Sigurjónsson, arkitekt hjá YRKI arkitektum, ræddi þær kröfur sem gerðar eru til stöðvanna og umhverfisins í kringum þær, greiningar sem hafa verið gerðar og annað sem máli skiptir á opnu málþingi um fjölbreyttar samgöngur, sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær.
Myndefni sem fylgir umfjölluninni er enn í vinnslu. Nákvæmt útlit eða útfærslur liggja ekki fyrir.
Að fjölmörgu að huga
Sagði Yngvi í erindi sínu að verkefnið kunni að líta auðveldlega út en sagði að fjölmörgu að huga.
„Við erum með ákveðið rými sem vagnarnir þurfa að taka. Það þarf að huga að gatnakerfinu sem leggst utan um borgarlínuvegina, hjólastígum, göngustígum og svo er allt klætt saman með gróðri og lýsingu fyrir nærumhverfið.
Þá þarf að huga að því hvernig borgarlína er tengd inn á torg og aðliggjandi götur sem og að huga að því efni sem verður notað í götur, stéttar, lýsingu og annað.
Einnig þarf að fara yfir öll öryggisatriði varðandi vagna, hjól og gangandi vegfarendur og hvernig við notum stéttar, vegbrúnir, kanta og leiðarlínur fyrir sjónskerta,“ sagði Yngvi.
Hlýja, alúð og öryggi
Útgangspunkturinn er að sögn Yngva að skapa stöðvar sem veita hlýju, alúð og öryggi. Fyrir aftan þær verður leiðakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, nýjar göngu- og hjólaleiðir sem fylgja öllum borgarlínustöðvunum.
Borgarlínan sjálf verður á miðrein þannig að fólk getur hjólað að borgarlínustöðvunum, lagt hjólum sínum og tekið vagnana.
Rík áhersla verður lögð á gróður innan borgarlínunnar og þannig segir Yngvi að bæði vistkerfið og ásjóna borgarlínunnar verði bætt til muna.
„Borgarlínan á eftir að verða mikið kennileiti innan höfuðborgarsvæðisins.“

Líkan útfært – mælingar og mátanir
Í máli Yngva kom fram að innan stöðvanna sé að mörgu að huga. Hann þarf leiðarlínur og aðgengisrampa svo allir komist upp á stöðvarpallana. Huga þarf að upplýsingakerfi, -skiltum og stöndum.
Efni og efnisval hefur verið í skoðun og haldnir verið stöðufundir með fulltrúum sveitarfélaganna, Strætó, Betri samgangna og annarra hagsmunaaðila til að draga fram þeirra skoðanir og koma þeim á framfæri.
Efnisprufur hafa verið lagðar fram og líkan útfært í hlutföllunum 1:1 til að hægt væri að mæla allt upp, máta við og sjá hvernig virkar.
Tillögur voru þá útfærðar enn frekar, hvar ákveðnar stöðvar verða staðsettar og hvernig efnisval hefur áhrif á umgang, þrif og viðhald á stöðvunum.
Hugað var betur að lýsingu, dreifingu lýsingar og sýnileika og hvernig notendur upplifa öryggi.

Prófanir á hjólastólum og fleiru
Sérstakur stöðufundur var haldinn með Öryrkjabandalaginu, Blindrafélaginu og öryggisaðila frá Reykjavíkurborg þar sem svæðið var mælt upp, prófað að snerta á efnum og nokkrar gerðir af hjólastólum prófaðar.
Þá voru bekkir prófaðir og standar skoðaðir með tilliti til augnhæðar, sýnileika og hvernig best sé á að horfa. Hugað var að andstæðum í litum og öðru sem máli skiptir fyrir augað. Yngvi sagði þessar prófanir hafa verið gerðar í samráði við Strætó en grafískur hönnuður frá Strætó hjálpaði til með læsileika á upplýsingum.
Þá voru ýmis öryggisatriði útfærð, eins og veggir, öryggisgrindverk sem stoppar slettur og annað kast sem og þægindi eins og stand- og setbekkir.
Yngvi sagði að í lotu 1 væri verið að einblína á að hafa borgarlínuvagnana alltaf í miðreininni en til þess að geta haft þá þar þurfi að skoða vel svæðið í kring. Þar þurfi að vera öruggt flæði fólks yfir hinar göturnar, bæði göngu- og hjólastígar. Þá þurfi að huga að almennri umferð, ljósastýringu og öðrum öryggisatriðum sem þurfi að uppfylla.
Þá sagði hann að biðskýlin verði meira og minna eins á öllum stöðvum en stærri skýli verði á skiptistöðvum á borð við Hlemm.

Heimild: Mbl.is