
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur fallist á umsókn Nýs Landspítala ohf. (NLSH) um að hefja deiliskipulagsgerð í Fossvogi með það fyrir augum að þar rísi framtíðarhúsnæði geðþjónustu Landspítala. Skipulagslýsing vegna verkefnisins var samþykkt á fundi ráðsins í vikunni.
„Þetta eru stór tíðindi og gleðileg því varla er hægt að hugsa sér betri staðsetningu og umhverfi til að byggja upp húsnæði fyrir geðþjónustu sem uppfyllir nútíma kröfur um batamiðaða hönnun“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri: „Það er okkur í Reykjavíkurborg hjartans mál að nýtt geðsvið rísi í nálægð við núverandi Landspítala í Fossvogi. Þannig tryggjum við betra aðgengi og samspil við þá heilbrigðisþjónustu sem þegar er á svæðinu. Við vitum öll að geðheilsa er stór hluti af heilsu fólks og Reykjavík á að vera borg sem styður við fólk á öllum æviskeiðum, í gleði og áföllum, í styrk og veikleika. Uppbygging nýs geðsviðs í Fossvogi er skýrt dæmi um þá sýn.”
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala: „Staðsetning framtíðarhúsnæðis fyrir geðþjónustu Landspítala er gríðarlega mikilvægur áfangi. Núverandi húsnæði geðþjónustunnar uppfyllir ekki þau viðmið sem nútímageðþjónusta setur um aðbúnað við einstaklinga sem stríða við þungbæra geðsjúkdóma.
Með þessu er tekið stórt skref í átt að því að tryggja batamiðaða nálgun í þjónustu við fólk með geðraskanir í nútímalegu og manneskjulegu umhverfi. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Landspítala og samfélagið allt.“
Nýr Landspítali mun innan tíðar hefja vinnu við deiliskipulagsgerðina í samvinnu við Reykjavíkurborg og hagaðila. Gera má ráð fyrir að tillaga að breyttu deiliskipulagi liggi fyrir snemma á næsta ári fari þá í hefðbundið kynningar- og umsagnarferli samkvæmt skipulagslögum.
Ákvörðun um að byggja nýtt geðhúsnæði utan Hringbrautarlóðar Landspítala byggir á ítarlegri valkostagreiningu og er í samræmi við tillögu stýrihóps um skipulag framkvæmda við Nýjan Landspítala.
NLSH vinnur nú að frumathugun í samræmi við lög nr. 84/2001 um skipun opinberra framkvæmda sem mun meðal annars leiða í ljós hver stærð hússins verður í samræmi við þarfir þjónustunnar.
Gert er ráð fyrir að byggingin verði á einni til tveimur hæðum með opnum inngörðum. Þetta fyrirkomulag er sniðið að batamiðaðri hönnun sérhæfðs geðsjúkrahúss þar sem áhersla er lögð á fremstu gæði varðandi aðbúnað og upplifun fólks, jafnt starfsmanna, sjúklinga og gesta þeirra.
Að því gefnu að deiliskipulag og frumathugun hljóti samþykki og ákveðið verði að ráðast í framkvæmdir er áætlaður verktími við hönnun og framkvæmdir um fimm ár. Ef vel gengur má því áætla að nýtt húsnæði verði tilbúið árið 2031, með fyrirvara um fjárheimildir Alþingis.
Heimild: Stjornarradid.is