Arnar Skjaldarson og Aron Elí Sævarsson hafa gengið til liðs við þróunarsvið Reita.
Arnar Skjaldarson og Aron Elí Sævarsson hafa gengið til liðs við þróunarsvið Reita til að styðja við umfang þróunarverkefna hjá félaginu. Félagið sér fram á mikinn vöxt á næstu árum og vinnur nú að verkefnum við Kringlureit, Korputún og Nauthólsveg.
Í tilkynningu frá Reitum segir að Arnar hafi verið ráðinn verkefnastjóri nýframkvæmda á þróunarsviði. Hann mun sjá um að leiða og hafa yfirumsjón með framkvæmdum og uppbyggingu Kringlureits.
Hann hefur víðtæka reynslu úr mannvirkjageiranum ásamt því að hafa gegnt starfi byggingarfulltrúa um hríð. Áður en Arnar hóf störf hjá Reitum þá starfaði hann sem verkefnastjóri hjá VHE við uppbyggingu á fjölbýlishúsum.
Arnar er húsasmíðameistari og byggingafræðingur frá Vitus Bering í Danmörku, ásamt því að vera löggiltur mannvirkjahönnuður.
Aron Elí hefur þá hafið störf sem verkefnastjóri á þróunarsviði. Hann mun annast margþætt verkefni hjá félaginu og styðja við framgang bæði núverandi og framtíðarverkefna sem félagið hefur á teikniborðinu.
Hann var áður verkefnastjóri hjá Verkís þar sem hann tók þátt í umfangsmiklum byggingar- og skipulagsverkefnum. Þar áður starfaði Aron hjá Sjóvá við fjölbreytt verkefni á tjónasviði og við umbætur innri ferla fyrirtækisins.
Aron Elí er með meistarapróf í iðnaðar- og kerfisverkfræði frá University of Wisconsin-Madison í Bandaríkjunum.
Heimild: Vb.is