Home Fréttir Í fréttum Samningar um hönnun nýs menningarhúss undirritaðir

Samningar um hönnun nýs menningarhúss undirritaðir

16
0

Síðastliðinn þriðjudag skrifuðu Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar og Þorvarður Lárus Björgvinsson framkvæmdastjóri Arkís arkitekta undir samning um hönnun byggingar nýs menningarhúss í Skagafirði og tilheyrandi endurbóta á eldra húsnæði Safnahúss Skagfirðinga.

Í nýju menningarhúsi mun verða lifandi vettvangur sviðslista í Skagafirði sem fá nýja og glæsilega aðstöðu í 180-200 manna sal en auk þess mun þar fara fram starfsemi Héraðsbókasafns Skagfirðinga, Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Listasafns Skagfirðinga, Byggðasafns Skagfirðinga og tengd fræðastarfsemi, auk þess sem hluti hússins mun rúma viðurkennd varðveislurými sem uppfylla kröfur ríkisins um aðbúnað opinberra skjala- og byggðasafna eins og fram kemur í lögum og reglugerðum.

Í húsinu verður aðstaða til að halda metnaðarfullar sýningar í fjölnota sýningarsal, s.s. myndlistarsýningar, ljósmyndasýningar, sýningar á höggmyndalist o.s.frv. Þar mun jafnframt verða miðstöð rannsókna á skagfirskum menningararfi og öll aðstaða almennings til að njóta fjölbreyttrar menningar og menningararfs verður stórefld.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við nýtt menningarhús verði lokið fyrir árslok 2027. Kostnaðarskipting er með þeim hætti að ríkið greiðir 60% en sveitarfélagið 40%.

Samhliða hönnun á nýju menningarhúsi verður unnið að uppfærðu deiliskipulagi fyrir Flæðarnar á Sauðárkróki og eru íbúar hvattir til að taka virkan þátt í þeirri vinnu.

Heimild: Skagafjordur.is