
Eigendur Héraðsskólans á Skógum vilja byggja hótel í viðbyggingu við skólann og bæta við allt að 100 gistirýmum í viðbyggingu. Skólinn var í fyrra seldur frá ríkinu til EJ hotels sem er í eigu bræðranna Jóhanns Þóris og Einars Jóhannssona.
Fram að sölunni því hafði skólinn verið í útleigu til EJ hotels. Fyrirtækið rekur Hótel Skógarfoss, Hótel Skógá og Hótel Anna í Rangárþingi-eystra.
Skólahald var í grunnskólanum allt til ársins 1999. Frá þeim tíma hefur hann verið nýttur sem gistirými fyrir ferðamenn og fyrst eftir að skólahald lagðist af nýtti Hótel Edda skólann. Pláss er 28-30 manneskjur en ef af breytingaráformum verður munu gistirýmin verða 130. Þá er óskað eftir heimild fyrir 78 bílastæðum.
Byggingarmagn verði allt að 8700 fermetrar
Í breytingarbeiðni á deiliskipulagi sem liggur fyrir hjá Rangárþingi Eystra kemur fram að skólinn sé rúmir 2500 fermetrar fermetrar að stærð en beiðnin snýr að því að leyfilegt heildarbyggingarmagn verði allt að 8700 fermetrar. Ekki er tilgreindur fermetrafjöldi viðbyggingar í áformum en ef tekið er mið af teikningu er um u.þ.b. tvöföldun á stærð hússins að ræða.

Fellur ekki undir lögformlega vernd
Skólinn var byggður á árunum 1946-1949 og var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni arkitekt. Í umsögn Minjastofnunar segir að húsið falli ekki undir lögformlega vernd skv. ákvæðum laga um menningarminjar nr. 80/2012 en húsið engu að síður sagt hafa ótvírætt varðveislugildi.
„Mikilvægt er að viðbygging beri upphaflegu bygginguna ekki ofurliði. Þannig færi vel á að hæð nýbyggingar væri minni en núverandi húss og að tengingar á milli gamla hússins og nýbyggingar verði hugsaðar vandlega. Tillagan felur í sér geysilega aukningu á byggingarmagni: allt að þriggja hæða byggingu en gamla skólahúsið er tvær hæðir og kjallari. Einnig er óljóst hvort útlínur fyrirhugaðrar viðbyggingar á tillöguuppdrættinum séu bindandi eða ekki en þær vekja spurningar um hvernig tengingu á milli húsanna verði hagað,“ segir í umsögn Minjastofnunar.
Að undanskildri umsögn frá Rarik hafa ekki borist fleiri umsagnir um áformin.
Heimild: Mbl.is