
Arion banki mun greiða rúman milljarð í uppbyggingu íþróttamannvirkis á Blikastaðalandinu.
Blikastaðaland ehf., sem er í eigu Arion banka, og Mosfellsbær undirrituðu samstarfssamning um uppbyggingu á Blikastaðalandinu í maí 2022. Á þeim tíma var bókfært virði Blikastaðalands í efnahagsreikningi Arion banka 5,1 milljarðar króna. Í lok júní var bókfært virði landsins uppfært í 7,1 milljarð króna.
Samkvæmt samstarfssamningnum, sem er enn í fullu gildi, mun Blikastaðaland ehf. greiða Mosfellsbæ um 6 milljarða króna byggingarréttargjald, sem deilist hlutfallslega niður á heildarfjölda íbúðareininga á svæðinu við útgáfu byggingarleyfis í hverjum áfanga fyrir sig.
Félagið mun einnig leggja bænum til um 1 milljarð króna vegna þátttöku í uppbyggingu íþróttamannvirkis á svæðinu sem deilist niður á framkvæmdatíma þess mannvirkis.
Í samningnum er kveðið á um að Blikastaðaland ehf. afhendi Mosfellsbæ til eignar 40 einbýlishúsalóðir samkvæmt fyrirkomulagi, sem nánar er kveðið á um í samningnum.
Félagið mun ennfremur afhenda 80% af söluverði tiltekinna lóða fyrir atvinnuhúsnæði og 60% af söluverði lóða fyrir íbúðir fyrir 55 ára og eldri til Mosfellsbæjar. Að öðru leyti mun allur byggingaréttur ásamt tilheyrandi lóðarréttindum tilheyra Blikastaðalandi ehf.
Mosfellsbær eignast landið
Tekið er fram í samningnum að Mosfellsbær muni eignast allt landið endurgjaldslaust til eignar eftir því sem þróun svæðisins miði áfram, þar með talið grunneignarrétt allra lóða.
Blikastaðaland ehf. mun annast framkvæmdir við gatnagerð, opin svæði, leikvelli, götulýsingar, holræsi og vatnslagnir í samstarfi við Mosfellsbæ. Félagið hefur heimild til að falla einhliða frá þeirri skuldbindingu og mun þá greiða gatnagerðargjöld til Mosfellsbæjar eftir skilmálum sem nánar er kveðið á um í samningnum.
Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hafa þessi atriði í samningnum frá 2022 ekki breyst. Hins vegar hafa þær fjárhæðir sem nefndar eru, eins og 6 milljarða byggingaréttargjald og 1 milljarðs framlag í uppbyggingu íþróttamannvirkis, breyst því þær eru vísitölutryggðar. Þá segir í svari að fleiri skyldur en koma þarna fram hvíli á landeiganda.
Miðað við breytingu á vísitölu er byggingaréttargjaldið um 7,6 milljarðar í dag og framlag til uppbyggingar íþróttamannvirkis tæplega 1,3 milljarðar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.
Heimild: Vb.is