
Gert er ráð fyrir 1.270 íbúðum og hátt í 7.800 fermetrum af húsnæði fyrir verslun og þjónustu í fyrsta áfanga.
Arion banki á eitt stærsta byggingarland landsins en það er Blikastaðalandi í Mosfellsbæ. Blikastaðalandið, sem er 98 hektarar að stærð, er eitt stærsta óbyggða land á höfuðborgarsvæðinu. Á svæðinu er gert ráð fyrir á bilinu 3.500 til 3.700 íbúðum, þar af verða 20% fasteigna sérbýli.
Vinna við deiliskipulag fyrsta áfanga Blikastaðalands er nú í gangi. Í þessum fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 1.270 íbúðum og hátt í 7.800 fermetrum af húsnæði fyrir verslun og þjónustu. Ennfremur er gert ráð fyrir sambyggðum leik- og grunnskóla, sem og öðrum leikskóla til.
Gert er ráð fyrir því að að þetta deiliskipulag fari í kynningu nú í lok árs. Í framhaldi af því hefst innviðauppbygging. Gert er ráð fyrir því að íbúðauppbygging geti hafist á árinu 2027 og að fyrst íbúarnir geti því mögulega flutt inn á árinu 2028.
Mögulega minniháttar breytingar
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir skipulagsvinnuna í fullum gangi og staðfestir að hún verði kynnt í skipulagsgátt í haust. Hún segir samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila mikilvægt í svona vinnu.
„Skipulagsferli er lýðræðislegt og því mikilvægt að hafa þann fyrirvara á öllum tímasetningum,“ segir Regína. Bætir hún því við að íbúðafjöldi og fermetrar geti tekið minniháttar breytingum. Gert sé ráð fyrir tveimur leikskólum og einum grunnskóla í 1. áfanga en nákvæm útfærsla sé í vinnslu.
Allt að 3.700 íbúðir
Eins og áður sagði er gert ráð fyrir 3.500 til 3.700 íbúðum á svæðinu. Upphafleg áætlun miðaði við 66 þúsund fermetra af verslunar- og þjónustuhúsnæði en það kann minnka til móts við íbúðir sem ætlaðar verða íbúum 55 ára og eldri.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Spurð hvenær sé ráðgert að ljúka skipulagsvinnu alls svæðisins varar Regína: „Svæðið er víðfeðmt og umfangsmikið og fyrirliggjandi eru samningar um uppbyggingu með landeiganda. Sveitarfélagið mun í samstarfi við landeiganda taka ákvarðanir á seinni stigum um frekari deiliskipulagsgerð, áfangaskiptingu og uppbyggingarhraða, allt eftir aðstæðum og framvindu hverju sinni. Því er deiliskipulagsgerð næstu áfanga ekki tímasett.“
Blikastaðalandið er á sveitarfélagamörkum við Reykjavík og afmarkast af Hlíðargolfvelli í norðri, Korpúlfsstaðavegi og Vesturlandsvegi í suðri, núverandi byggð í Mosfellsbæ í austri og Korpu/Úlfarsá í vestri.

© Tölvumynd/EFLA (Tölvumynd/EFLA)
Í útjaðri landsins eru tveir golfvellir. Annars vegar Korpúlfsstaðavöllur, sem er í land Reykjavíkurborgar og hins vegar Hlíðavöllur við Leirvog í Mosfellsbæ. Samkvæmt skipulagi mun Borgarlínan ganga þvert í gegnum Blikastaðalandi og tengja þannig Reykjavík og Mosfellsbæ.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.
Heimild: Vb.is