
Nú hillir undir að þrautagöngu byggingar Ásatrúarfélagsins á nýju hofi í Öskjuhlíð fari að ljúka en hofið hefur verið á byggingarstigi síðan árið 2015.
Bygging hofsins vakti mikla alþjóðlega athygli á sínum tíma og birtust meðal annars fréttir af henni á BBC og The Guardian.
Boðað til opins umræðufundar
Félagið hefur boðað til opins umræðufundar laugardaginn 11. október.
Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði sagði sumarið 2023, í samtali við mbl.is, að engar kvaðir væru um að byggingu hofsins yrði lokið innan ákveðins tímaramma. Hraði uppbyggingarinnar færi eftir því sem efni stæðu til.
Alda Vala Ásdísardóttir, staðgengill Hilmars Arnar, sagði í júlí á þessu ári, í samtali við mbl.is, að verkfræðivinna væri í gangi á bak við tjöldin en engar áætlanir um að verki yrði fram haldið fyrr en eftir um eitt og hálft ár.
Helgidómur og athafnarými í fyrsta áfanga
Einum mánuði áður greindi lögsögumaður Ásatrúarfélagsins frá því á opnum fundi að fjárhagsstaða þess væri að verða þannig að félagið gæti farið að huga að næsta áfanga í byggingu hofsins og að framkvæmdir gætu mögulega hafist í lok árs 2026.
Í auglýsingu vegna fundarins í október kemur fram að lögsögumaður, gjaldkeri og allsherjargoði hafi í vor og sumar fundað bæði með viðskiptabanka félagsins og verkfræðistofunni Verkís.
Á fundinum verður greint frá umræðum þeirra funda og lögð fram gögn úr væntanlegum ársreikningi félagsins fyrir nýliðið rekstrarár. Þá verður uppfærð áætlun um byggingarkostnað fyrsta áfanga lögð fram sem og rekstraráætlun félagsins til næstu fimm ára, viðskiptaáætlun um fjármögnun framkvæmda miðað við nokkrar sviðsmyndir og tímaáætlun framkvæmda.
Fundurinn verður einungis opinn félagsmönnum en streymi frá honum verður aðgengilegt gestum. Rúmlega 6.200 félagsmenn eru í Ásatrúarfélaginu og stöðug og jöfn fjölgun hefur verið í félaginu í gegnum tíðina.
Í fyrsta áfanga verður helgidómur og athafnarými fullbyggð þannig að athafnir munu fara fram í hofi. Þá verður hægt að taka á móti gestum, að því er segir í auglýsingunni.
Allsherjarþing hefur ákvörðunarvaldið
Guðmundur Rúnar Svansson, lögsögumaður Ásatrúarfélagsins, segir í samtali við mbl.is fjárhagsstöðu félagsins góða og þrautagöngu þess sé loks að ljúka.
Aðspurður segist hann ekki gefa upp neinar tölur á þessari stundu, þær verði lagðar fram fyrir félagsmenn fyrst.
Á fundinum hyggst lögsögumaður leggja fyrir félagið áætlanir um að hefja drög að áframhaldandi framkvæmdum við byggingu hofsins.
„Við erum að undirbúa aðalfund, sem verður 1. nóvember, og nefnist Allsherjarþing. Áformin verða endanlega ákveðin þar.“
Heimild: Mbl.is