Home Fréttir Í fréttum Múlaþing stóð rétt að málum við mat á tilboðum í Gamla ríkið

Múlaþing stóð rétt að málum við mat á tilboðum í Gamla ríkið

20
0
Gamla ríkið flutt af eldri undirstöðum sínum í sumar. Mynd: Jafet Sigfinnsson

Innviðaráðuneytið telur ekkert athugavert við mat Múlaþings á tilboðum sem bárust í Gamla ríkið á Seyðisfirði. Eitt þeirra fyrirtækja sem buðu í verkið en fengu ekki kvartaði til ráðuneytisins.

Hafrenningur ehf. krafðist þess að ákvörðun Múlaþings um að taka tilboði Úlfsstaða í Gamla ríkið yrði felld úr gildi þar sem það taldi á sér brotið.

Þegar Múlaþing auglýsti í lok síðasta árs eftir verktökum til að taka yfir Gamla ríkið og gera það upp voru sett ákveðin skilyrði, svo sem að bjóðendur gætu sýnt fram á jákvætt eigið fé, væru í skilum með opinber gjöld og gætu leyst verkið faglega. Til að sannreyna fjárhagslega burði var meðal annars farið fram á síðustu tvo ársreikninga.

Ársreikningar Hafrennings fyrir árin 2022 og 2023 sýna neikvætt eigið fé. Félagið reyndi hins vegar að leggja fram drög að rekstrar- og efnahagsreikningi 2024 þar sem staðan var orðin önnur. Þá benti félagið á jákvæða eiginfjárstöðu systurfélaga.

Hafrenningur taldi Múlaþing bera að kanna hvort eigið féð væri sannarlega neikvætt þegar tilboðið var gert eða leiðbeina um hvaða gögn teldust fullnægjandi. Félagið vildi meina að Múlaþing gæti nýtt sér undanþágu í auglýsingunni um að tilboð væri gilt ef nýr endurskoðaður árshlutareikningur sýndi jákvætt eigið fé.

Reikningsdrög duga ekki

Múlaþing svaraði því að sveitarfélagið hefði fundað með bjóðendum og óskað eftir ársreikningum. Drög að rekstrarreikningi breyttu því ekki að ársreikningurinn uppfyllti ekki skilyrðin. Þá væri ótækt að horfa til systurfélaganna því bjóðandinn bæri skyldurnar gagnvart samningnum.

Niðurstaða ráðuneytisins var að Múlaþing hefði gætt jafnræðis, meðal annars með því að nýta ekki undanþáguheimildina sem hefði skapað ójafnvægi þar sem önnur tilboð voru í lagi. Þá væri málefnalegt að krefjast fjárhagslegra burða og reynslu og það hefði uppfyllt rannsóknarskylduna með að krefjast gagna.

Fyrr í sumar hafnaði ráðuneytið því að taka fyrir stjórnsýslukæru Hafrennings á þeim forsendum að það hefði ekki lögsögu í málinu. Það réðist hins vegar í athugun, eins og heimild er til í lögum, á því hvort stjórnsýslan hefði verið fullnægjandi í málinu. Ráðuneytið telur að svo hafi verið.

Heimild: Austurfrett.is