
Félagið á 50% hlut í Steindóri ehf., sem á m.a. Steindórsreitinn, sem var færður upp um tæpan milljarð á dögunum.
Fjárfestingafélagið IREF ehf. mun greiða allt að 500 milljónir króna í arð á árinu 2025, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins fyrir árið 2024.
Á síðasta ári greiddi félagið út rúman milljarð í arð og lækkaði eigið fé því umtalsvert, þrátt fyrir stöðugar tekjur og virðisaukningu í dóttur- og hlutdeildarfélögum.
Fjárfestingafélagið er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarins Arnars Sævarssonar, aðaleigenda Re/Max.
Rekstrartekjur félagsins námu 448,8 milljónum króna á árinu 2024 og jukust um 23% frá fyrra ári er þær námu 363,6 milljónum. Þrátt fyrir auknar tekjur lækkaði hagnaður verulega milli ára og nam aðeins 1,3 milljónum króna, samanborið við 29,1 milljón árið áður.
Helstu ástæður þess voru neikvæð áhrif af fjárfestingum í verðbréfum og mikill rekstrarkostnaður.
Tap af fjárfestingum og verðbréfum nam 243 milljónum króna og vaxtagjöld voru 75 milljónir.
Á móti kemur að Steindór ehf. og önnur dótturfélög skiluðu talsverðum arði en IREF á hluti í fjölda félaga og nam hlutdeildarhagnaður frá þeim 420 milljónum króna á árinu.
Félagið á 50% hlut í Steindóri ehf., sem er metinn á 1.534 milljónir króna og skilaði 741 milljóna hagnaði.
Steindór ehf. á m.a. fasteignina á Steindórsreit sem hækkaði nýverið í verði um tæpan milljarð króna. Hinn helmingurinn í Steindóri ehf. er í eigu Eignabyggðar ehf. og HB eigna ehf., sem eiga 25% hvor.
Aðrir stórir eignarhlutir eru í:
Steinar Resort ehf. (60%) – metinn á 183 milljónir og skilaði 70 milljóna hagnaði.
Elfoss ehf. (50%) – metinn á 75 milljónir.
Hótel Flatey ehf. (100%) – skilaði tapi upp á 37 milljónir
Lind fasteignasala ehf. (6%) – skilaði hagnaði upp á 11,8 milljónir.
Heildareignir félagsins lækkuðu um rúman milljarð króna á árinu, úr 5.049 milljónum í 4.033 milljónir.
Varanlegir rekstrarfjármunir lækkuðu sérstaklega, m.a. vegna sölu fasteigna upp á 570 milljónir króna. Þá lækkuðu fjáreignir félagsins einnig verulega.
Fasteignir sem félagið átti í árslok eru m.a.:
Reynimelur 66, Reykjavík – metinn á 205 milljónir
Lónakot, Hafnarfirði (50%) – metið á 475 milljónir
Sumarhúsalóðir í Heiðabrún – metnar á 2 milljónir.
Eigið fé í lok árs 2024 nam 3.347 milljónum króna, samanborið við 4.375 milljónir árið áður.
Eiginfjárhlutfall stendur þó sterkt í 83% og félagið á yfir 78 milljónir í handbæru fé.
Heimild: Vb.is