Home Fréttir Í fréttum Fjarðabyggð gat ekki bakkað út úr fasteignakaupum eftir að verðið reyndist of...

Fjarðabyggð gat ekki bakkað út úr fasteignakaupum eftir að verðið reyndist of hátt

37
0
Mynd: Austurfrett.is

Fjarðabyggð hefur gengið frá kaupum á Hafnargötu 6 eftir að hafa verið dæmd til að ganga til kaupsamninga um Hafnargötu 6 á Reyðarfirði á grundvelli verðmats matsmanna. Það verð er helmingi hærra en fasteignamatið sem sveitarfélagið ætlaði upphaflega að nýta sér.

Húsið, sem um ræðir, er þekktast fyrir að hýsa starfsemi Terra, sem áður hét Gámaþjónustan. Það fyrirtæki hefur leigt húsið af Machinery ehf. Terra hafði í upphafi forkaupsrétt að húsinu fyrir 55 milljónir, auk verðbóta, en sá réttur féll út við endurnýjun leigusamnings.

Árið 2012 keypti Machinery næstu lóð við, Ægisgötu 6, sem óbyggð en gróin, og sameinaði hluta hennar við Hafnargötu 6. Þá var gerður nýr lóðaleigusamningur til 40 ára en einnig samningur um kauprétt.

Í þeim samningi eru ákvæði um að eftir 10 ár geti sveitarfélagið keypt lóðina. Heimildin er virk í ár og segir þar að kaupverðið miðist við fasteignamat. Felli annar aðilinn sig ekki við það geti hann óskað eftir dómkvöddum matsmönnum. Sé verðmat þeirra meira en 10% frá fasteignamatinu skuli ganga til samninga á grundvelli matsins. Þrír mánuðir eru gefnir til samningsgerðar, frá því að matið liggur fyrir.

Fjarðabyggð reyndi að hætta við

Fjarðabyggð tilkynnti haustið 2022 að það ætlaði að nýta sér kaupréttinn. Fyrirliggjandi fasteignamat var þá 68,9 milljónir en var stuttu síðar uppfært í 72,3 milljónir. Machinery taldi það ekki endurspegla verðmæti eignarinnar og óskaði því eftir matsmönnum. Þeir mátu húsið á 139 milljónir. Þá sendi Machinery erindi á Fjarðabyggð með beiðni um viðræður um kaupsamning á grundvelli verðmatsins.

Í október 2023, innan þriggja mánaða frá því að matið lá fyrir, óskaði Fjarðabyggð eftir að hætta við kaupin. Því mótmælti Machinery og taldi kaupskyldu hafa myndast þegar sveitarfélagið ákvað að nýta kaupréttinn.

Fjarðabyggð mótmælti því og hélt því fram að um væri að ræða einhliða rétt sem sömuleiðis væri einhliða hægt að falla frá. Ekki væri hægt að setja aðila í þá stöðu að geta ekki tekið ákvörðun út frá verði. Þá væri fjallað um samning í samkomulaginu við Machinery þannig að skylda myndaðist skylda.

Samningurinn kveður á um réttindi og skyldur beggja aðila

Á þetta féll Héraðsdómur Austurlands ekki heldur taldi orðalagið í samningnum skýrt um skyldu til að kaupa eftir að kaupréttur væri virkjaður. Þvert á móti væru í samningnum gagnkvæmar skyldur. Þar sé ekkert um að aðilar gætu fallið frá réttindum sínum. Ekki væri í honum vísað til þess að tveir óbundnir aðilar væru að skiptast á tilboðum heldur væri á skýran hátt fjallað um í hvaða farveg málið færi.

Héraðsdómur taldi því Fjarðabyggð skylduga til að ganga til kaupa við Machinery á grundvelli matsgerðarinnar. Sveitarfélaginu var einnig gert að greiða 1,2 milljónir í málskostnað.

Í kjölfar dómsins var gengið til samninga á grundvelli hans og varð niðurstaðan að Fjarðabyggð greiddi 139 milljónir fyrir húsið. Það hefur verið afhent.

Heimild: Austurfrett.is