
Þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar við Hvammsvirkjun, meðal annars undirbúningur frárennslisskurðar, eru samkvæmt fyrirliggjandi framkvæmdaleyfi. Þetta segir Ólöf Rós Káradóttir, verkefnastjóri Hvammsvirkjunar hjá Landsvirkjun, í samtali við Morgunblaðið.
Ríkisútvarpið ræddi í gær við ábúanda á Stóra-Núpi, sem er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhugaðri virkjun. Sagði hann að mikil truflun væri af sprengingum vegna framkvæmda Landsvirkjunar, þar sem loftbylgjur skyllu á húsum og hestar fældust. Þá sagði ábúandinn augljóst að ekki væri aðeins um undirbúningsvinnu að ræða, vinna við frárennslisskurð væri hafin og það væri beinn hluti af virkjanaframkvæmdum.
Virkjanaleyfið liggur nú hjá Hæstarétti sem á eftir að skera úr um lögmæti þess og því óheimilt að hefja vinnu við sjálfa virkjunina.
Í fullu samræmi við leyfið
„Við erum með gilt framkvæmdaleyfi og þetta er í fullu samræmi við það,“ segir Ólöf Rós. „Þessi frárennslisskurður er vissulega hluti af virkjanaframkvæmdinni en við gerum ekkert í ánni fyrr en við erum komin með öruggt virkjanaleyfi. Það er virkjanaleyfið sem er hjá Hæstarétti en ekki framkvæmdaleyfið.“
Auk vinnunnar við frárennslisskurðinn er nú meðal annars unnið að vegagerð á framkvæmdasvæðinu og undirbúningi vinnubúða.
Spurð út í truflunina frá sprengingum á framkvæmdasvæðinu sem ábúandinn á Stóra-Núpi lýsir segir Ólöf að þetta sé í fyrsta skipti sem hún frétti af slíkri truflun.
„Við höfum aldrei heyrt af neinu í líkingu við þetta og finnum þetta ekki sjálf,“ segir hún. „En þetta gefur okkur kannski ástæðu til að við herðum okkur í upplýsingagjöfinni og látum vita hvenær sprengingarnar eru að koma,“ segir Ólöf Rós. Hún tekur þó fram að Landsvirkjun hafi látið vita að sprengingar yrðu á svæðinu í sumar.
Þá segir Ólöf Rós að Landsvirkjun sé með titringsmæla í nágrenni við framkvæmdasvæðið og þeir hafi ekki bent til þess að mikil áhrif séu frá sprengingunum. „Við erum líka að fara að mæla hljóð beggja vegna við ána svo að við þekkjum áhrifin af þeim enn þá betur.“
Heimild: Mbl.is