Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Bráða­birgða­brú hífð á Ölfusá með stærsta krana lands­ins

Bráða­birgða­brú hífð á Ölfusá með stærsta krana lands­ins

59
0
Ljósmynd/Vegagerðin

Bráðabirgðabrú yfir Ölfusá var hífð á stöpla sína síðastliðinn föstudag. Brúin tengir varnargarð austan megin árinnar við steyptan sökkul á Efri-Laugardælaeyju. Brúin mun þjóna vinnuumferð út í eyjuna en þar þarf að reisa undirstöður fyrir 60 metra háan turn nýrrar Ölfusárbrúar.

Dágóður tími fór í undirbúning en sjálf hífingin gekk snuðrulaust og hratt fyrir sig. Byrjað var að hífa um klukkan 17 og var brúin komin á sinn stað um tuttugu mínútum síðar. DS lausnir sáu um að hífa brúna en til þess var notaður 400 tonnmetra krani sem er sá stærsti á landinu.

Ljósmynd/Vegagerðin

Brúin er frá fyrirtækinu Acrow á Bretlandi og er sömu gerðar og nýja færanlega göngu- og hjólabrúin yfir Sæbraut í Reykjavík. Hún kom ósamsett til landsins og það tók fimm menn tvo daga að setja hana saman, sem var tveimur dögum fljótar en framleiðandinn gerði ráð fyrir. Brúin var 44 tonn þegar hún var hífð af krananum en þegar búið verður að leggja brúargólf verður hún 68 tonn.

Næstu daga tekur við frágangur við brúna, steypa þarf bakveggi, festa brúargólf, ganga frá festingum og fylla jarðveg að henni. Áætlað er að það taki um það bil eina viku.

Heimild: Sunnlenska.is