
Vegagerðin hefur hafnað tveimur lægstu tilboðum sem bárust í eitt af stærstu útboðsverkum ársins, smíði tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit.
Þess í stað hefur Vegagerðin ákveðið að ganga til samninga við norskan verktaka, sem átti þriðja lægsta boð. Ákvörðunin hefur verið kærð til Úrskurðarnefndar útboðsmála.
Tilboðin sem var hafnað voru annarsvegar frá Vörubílstjórafélaginu Mjölni á Selfossi, sem átti lægsta boð upp á 1.626 milljónir króna, og hins vegar frá Sjótækni í Reykjavík, upp á 1.705 milljónir króna.
„Það er búið að hafna tveimur lægstu tilboðum þar sem þau stóðust ekki kröfur. Stefnt er á að semja við þriðja lægsta bjóðanda, sem er Leonhard Nilsen & Sønner,” segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, í svari við fyrirspurn fréttastofu.

Vegagerðin
Leonhard Nilsen & Sønner buðust til að vinna verkið fyrir 1.852 milljónir króna, sem er 14 prósentum og 226 milljónum króna hærra en lægsta boð.
„Lægstbjóðandi kærði þá niðurstöðu til Úrskurðarnefndar útboðsmála og er það í ferli núna. Það er ekki ljóst hvenær niðurstaða fæst í það mál og þá hvenær verður samið,” segir G. Pétur.

Í verkinu felst annars vegar smíði 58 metra langrar brúar á Djúpafjörð við Grónes og hins vegar 130 metra langrar brúar á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 metra bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar og rofvarnar.
Þetta er næstsíðasti áfangi einhverrar umdeildustu vegagerðar á Íslandi, sem jafnan er kennd við Teigsskóg. Áður var búið að brúa Þorskafjörð og leggja þjóðveginn um Teigsskóg. Einnig er lokið gerð tengivega að sveitabæjum í Gufudal og Djúpadal, sem tímabundið eru hluti Vestfjarðavegar.

Vegagerðin
Lokaútboðið í endurnýjun Vestfjarðavegar um Gufudalssveit er hins vegar eftir. Það er smíði 250 metra langrar stálbogabrúar yfir Djúpafjörð. Sú brú verður í stíl við brúna yfir Mjóafjörð í Djúpi og nýju Eldvatnsbrúna í Skaftárhreppi. Brúin verður smíðuð á verkstæði en sett saman á staðnum.
„Áætlað er að bjóða út stálbogabrúna fyrripart vetrar á árinu 2025,” segir G. Pétur.
Með framkvæmdunum í heild styttist Vestfjarðavegur um 22 kílómetra og samfellt bundið slitlag kemst á milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur. Jafnframt færist leiðin af tveimur fjallvegum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og verður eingöngu láglendisvegur um Gufudalssveit.
Heimild: Visir.is