Home Fréttir Í fréttum 18 milljarðar í fyrsta áfanga nýs öryggisfangelsis ekki nóg

18 milljarðar í fyrsta áfanga nýs öryggisfangelsis ekki nóg

29
0
Birgir Jónasson er settur fangelsismálastjóri. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Verja þarf töluvert meira fé í nýtt öryggisfangelsi við Eyrarbakka til að það standist væntingar, að mati fangelsismálastjóra. Kostnaður fyrsta hluta er 18 milljarðar.

Fyrsti hluti 18 milljarða króna öryggisfangelsis, fyrir tæplega hundrað fanga, verður boðinn út á næstunni. Fangelsismálastjóri segir þó að bregðast þurfi við plássleysi strax, ekki sé hægt að bíða fram yfir sumarið.

Framkvæmdir geta hafist fljótlega

Fangelsið verður það fyrsta hér á landi sem er sérstaklega hannað og byggt sem öryggisfangelsi. Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku að ráðast í byggingu þess.

Gert er ráð fyrir rými fyrir 92 fanga í fyrsta áfanga. Hann verður boðinn út á næstunni og framkvæmdir hefjast fljótlega eftir það. Þegar fangelsið er fullbyggt er gert ráð fyrir að það geti hýst allt að 128 fanga.

„Ég fagna þessu, þetta eru ánægjulegar fréttir. Það svo sem hafði stefnt í þetta en nú sjáum við að minnsta kosti að framkvæmdir geta hafist á næsta leyti sem er afar ánægjulegt,“ segir Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri.

Nýtt öryggisfangelsi við Stóra-Hraun.
Aðsent

Fangelsið að Stóra-Hrauni kemur í stað fyrirhugaðra endurbóta á Litla-Hrauni þar sem ástandið reyndist verra en áður var talið. Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga framkvæmdanna er um 18 milljarðar króna.

„Við teljum reyndar kannski að þetta verkefni, eins og við sjáum þetta í okkar bestu væntingum, að þetta muni kosta talsvert meira þannig að hönnunin verði eins og best verður á kosið.“

Kostnaðaráætlun vegna nýs fangelsis hefur rúmlega tvöfaldast síðan Guðrún Hafsteinsdóttir þáverandi dómsmálaráðherra tilkynnti um áformin 2023. Þá sagði hún að nýtt fangelsi kostaði sjö milljarða króna. Birgir segir erfitt að áætla heildarkostnað.

Myndin sýnir staðsetningu nýs öryggisfangelsis, skammt frá Litla-Hrauni. Inn á myndina er búið að setja tölvuteiknaða mynd af nýju fangelsi.
RÚV / fréttagrafík/Sigurður K. Þórisson

„Það er ekki alveg hlaupið að því að áætla kostnað vegna þessa. Að einhverju leyti var þetta sett fram mjög snemma í ferlinu, áður en að nýtt fangelsi var hannað. Síðan þá hefur sitthvað gerst og þetta komið í ljós, að þetta er það sem til þarf.“

„Getum ekki beðið sumarið af okkur“

Fangelsið verður það stærsta hér á landi og verður flokkað undir öryggisstig tvö af þremur. Þau eru skilgreind í samræmi við norræna staðla. Öryggisstig eitt gerir ráð fyrir mesta öryggi og þrjú minnsta.

„Hönnunin er þannig að það verði með nokkuð góðu móti hægt að hafa stjórn á aðstæðum í fangelsinu með hönnun.“

Svona á nýtt öryggisfangelsi að líta út.
Aðsent

Birgir segir nýtt fangelsi hafa mikla þýðingu, verið sé að horfa til framtíðar með hönnun þess þar sem mannúð og velferð fanga er betri. Þetta sé stórt öryggismál.

„Að stýra öllum innviðum í fangelsinu þannig að það sé unnt að vista erfiða einstaklinga. Þeir geti þá afplánað dóma og það sé hægt að hafa nokkuð góða stjórn á fangelsinu.“

Nýtt fangelsi sé einnig hollustu- og aðbúnaðarmál, bæði hvað varðar fanga og starfsfólk. Hægt sé að standa betur að meðferð og endurhæfingu fanga í nýja fangelsinu en gert er í dag.

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur.“

Öryggisfangelsið við Stóra-Hraun.
Aðsent

Boðunarlistar í afplánun myndu styttast með nýju fangelsi og refsingar ekki fyrnast, eins og dæmi eru um vegna plássleysis í fangelsum landsins.

Fangelsismálayfirvöld hafa sett fram tillögur við dómsmálaráðherra sem hægt væri að ráðast í núna. Til dæmis að rýmka heimildir til rafræns eftirlits, eins og með ökklaböndum, og gera milliríkjasamninga við Evrópulönd þannig að útlendingar geti afplánað í heimalandi sínu.

„Þessu hefur bara verið ágætlega tekið en þetta eru engu að síður úrræði sem mega ekki bíða mjög lengi. Við þurfum að bregðast skjótt við og það er okkar skoðun að við getum ekki beðið sumarið af okkur.“

Heimild: Ruv.is