Gæti orðið gríðarleg lyftistöng fyrir hverfið og haft jákvæð áhrif á framtíðar uppbyggingu þess og þróun.
Nýtt 90-180 rýma hjúkrunarheimili miðsvæðis á Ásbrú gæti risið á 18-24 mánuðum en eigendur fyrirtækisins Icelandic Home ehf. hafa sent Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum tilboð í kjölfar markaðskönnunar sem hún sendi út en þar er óskað eftir leiguhúsnæði fyrir allt að 80 til 120 hjúkrunarrými á Suðurnesjum og væri afhent innan tveggja ára.
Forsvarsmenn Icelandic home telja að verði tilboði þeirra tekið geti bygging hjúkrunarheimilis á Ásbrú verið gríðarleg lyftistöng fyrir hverfið og haft jákvæð áhrif á framtíðar uppbyggingu þess og þróun.
Í eigendahópi Icelandic Home ehf. eru að mestu Suðurnesjamenn en fyrirtækið hefur sérhæft sig í leigu húsnæðis til einstaklinga og fyrirtækja á síðustu tíu árum. Fyrirtækið er með á fimmta hundrað leigueiningar á sínum snærum og hjá félaginu starfa 10 manns. Á upphafsárum fyrirtækisins var áhersla á að þjónusta starfsfólk í flugtengdria starfsemi en hefur þróast og víkkað út.
Lífsgæðakjarni í miðju Ásbrúar
Sigurður Garðarsson, verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Nesvalla og Sjómannadagsráðs vann tilboð Icelandic Home og er ráðgjafi fyrirtækisins í því. Hann ásamt Þorleifi Björnssyni og Karli Finnbogasyni hjá Icelandic Home hafa kynnt verkefnið og tilboðið að undanförnu.
Þeir segja mikilvægt að styrkja Ásbrú og telja að uppbygging lífsgæðakjarna sem muni tengjast nýju hjúkrunarheimili muni skapa fleiri tækifæri til uppbyggingar og styrkingar Ásbrúar.
Þróun og uppbygging
„Framtíðarsýn okkar er að taka þátt í þróun og uppbyggingu Ásbrúar hverfisins. Verði af leigusamningi um nýtt hjúkrunarheimili í húsnæði félagsins opnast tækifæri til frekari þróunar svæðisins. Má þar nefna fjölgun þjónustu- og öryggisíbúða annaðhvort með því að þétta byggð, eða með því að nýta byggingar sem nú þegar eru til staðar. Við það opnast einnig tækifæri til að halda áfram þróun svæðisins í samstarfi við Reykjanesbæ, heilbrigðisyfirvöld og aðra hagaðila.
Þannig væri hægt að halda áfram með uppbyggingu aðstöðu og þjónustu fyrir heilsugæslu, félagsmiðstöð, matarþjónustu, líkamsrækt og aðra þjónustu. Með því að þétta byggðina og auka nýtingu lóða í nánasta umhverfi má skapa tengingar innandyra, eða með skjólgóðum gönguleiðum við hið nýja hjúkrunarheimili. Með því skapast grundvöllur fyrir uppbyggingu á lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk, með áherslu á að auðvelda eldra fólki að nýta sér þjónustu og aðstöðu sem styður við lífsgæði þeirra á eigin heimili sem lengst fram eftir ævinni.“
Við undirbúning tillögunnar hefur farið fram kynning á þessum tækifærum fyrir sveitarfélagið Reykjanesbæ og þróunarfélagið Kadeco. Báðir aðilar hafa lýst sig reiðubúna til að vinna að brautargengi áframhaldandi uppbyggingar komi til þess að nýtt hjúkrunarheimili rísi við Keilisbraut. Enda samræmist slík uppbygging markmiðum og framtíðarsýn beggja aðila fyrir svæðið. Þá passi þessi framtíðarsýn vel inn í þróunaráætlun Kadeco sem nefnist K64.
Kanablokkir fá nýtt hlutverk
Hugmynd Icelandic Home ehf. byggir á því að endurnýta og sameina tvær eldri byggingar sem nú eru í fullri útleigu, fyrrverandi íbúðarblokkir varnarliðsmanna, og gera á milli þeirra þriggja hæða viðbyggingu með lyftu- og stigahúsi ásamt fleiru sem þarf að vera til staðar fyrir starfsemi hjúkrunarheimilis.
Byggingarnar sem voru upphaflega byggðar á árunum 1951 til 1957 gengu í gegnum mikla endurnýjunm á árunum 1996 til 2004, þar sem gagngerar og viðamiklar endurbætur áttu sér stað. Fyrirhugað er að núverandi húsnæði fari í gegnum allsherjar endurnýjunarferli með umhverfisvænum áherslum til þess að það uppfylli kröfur um skipulag og húslýsingu í fylgigögnum markaðskönnunar.
„Við teljum og höfum mikla trú á því að með tilboði okkar sé komin raunhæf og hagkvæm lausn og sé samfélagslega sterk. Eftir 19 ár er nú er lag að gjörbylta Ásbrú sem er virkileg þörf á og mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á þróun svæðisins,“ sögðu þremenningarnir.
Heimild: Vf.is