Home Fréttir Í fréttum Framkvæma fyrir 120 milljarða á næstu þremur árum

Framkvæma fyrir 120 milljarða á næstu þremur árum

10
0
RÚV – Óðinn Svan Óðinsson

Landsnet ætlar að framkvæma fyrir 120 milljarða króna á næstu þremur árum. Höfuðáherslan í framkvæmdaáætlun er að klára hringtengingu rafmagns um landið. Miklar tafir hafa orðið við undirbúning fyrir nýjar háspennulínur sem þar gegna lykilhlutverki.

Hluti af Kerfisáætlun Landsnets til ársins 2034 er framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára. Fulltrúar frá Landsneti halda kynningarfundi víða um land um þessar mundir og kynna drög að kerfisáætlun, uppbyggingu og framtíð raforkuflutninga.

Lykilfræmkvæmdir í framkvæmdaáætlun við styrkingu byggðalínu

Áætlunin er mikið plagg sem Landsnet kallar Lífæð Íslands, hvorki meira né minna. „Það er gífurlega mikilvægt í nútímasamfélagi að hafa öflugt og nútímalegt flutningskerfi til þess í rauninni að koma raforkunni þar sem hún er framleidd til þeirra sem þurfa á henni að halda. Þannig að við teljum okkur vera lífæð Íslands og flytja lífsgæði til fólks víðs vegar um landið,“ segir Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti.

Lykilframkvæmdir í sjálfri framkvæmdaáætluninni segir hún að snúi að styrkingu byggðalínunnar, hringtengingunni sjálfri. Þar eru „systurnar þrjár“, eins og hún kallar stóru háspennulínurnar frá Akureyri alveg vestur í Hvalfjörð, Blöndulínu 3, Holtavörðuheiðarlínu 3 og Holtavörðuheiðarlínu 1. Þá er stækkun, eða breyting á tengivirkinu Landsnets við Hryggstekk austur á Héraði stór framkvæmd.

Kynningarfundur Landsnets á Akureyri þar sem fyrirtækið kynnir drög að kerfisáætlun og framtíð raforkuflutninga.
RÚV – Ágúst Ólafsson

Undirbúningur við stórar framkvæmdir tafist vegna andstöðu við háspennulínur

„Áætlaður kostnaður fyrir framkvæmdaáætlunina okkar, sem nær til næstu þriggja ára, eru 120 milljarðar króna. Þar af eru náttúrlega þessar þrjár systur, línurnar frá norðri í Hvalfjörð, þær eru mjög mikilvægar og taka stóran part af því sem við erum að byggja upp, innviði til 50 og jafnvel allt að 70 ára.“

Einhverjar af þeim framkvæmdum og línum sem taldar eru upp í framkvæmdaáætlun Landsnets, eru orðnar vel þekktar og síðustu árin hefur oft heyrst talað um þær vegna þess hve hægt hefur gengið að koma þeim í framkvæmd. Það á til dæmis við um Blöndulínu þrjú, háspennulínuna frá Blönduvirkjun austur til Akureyrar, en fjögurra til fimm ára seinkun er orðin á áformum um þessa nýju línu.

Viðræður við landeigendur í Skagafirði og Öxnadal ganga afar hægt. Húnabyggð hefur viljað tryggja fasteignagjöld af þessum línumannvirkjum og Akureyringar vilja Blöndulínu sem jarðstreng um bæjarlandið og hafa mótmælt harðlega þeim áformum Landsnets að leggja þar loftlínu.

„Við erum í stakk búin til að halda áfram samtalinu og við sjáum framgang í þessu verkefni þrátt fyrir allt. Blöndulína 3 hefur aldrei verið komin jafnlangt áður, þrátt fyrir allt, og við eigum bara í góðum samskiptum við sveitarfélögin og íbúa og landeigendur. Það þarf bara að halda því áfram og finna leið til að ná þessu í gegn,“ segir Svandís og segir eignarnám þrautaleið og of snemmt að segja til um hvort þurfi að grípa til þess. Þau voni enn að það náist samningar.

Framkvæmdir við Holtavörðuheiðarlínur 1 og 3 eiga að hefjast 2027. Þetta eru „systur Blöndulínunnar“ eins og Svandís nefnir og lykilþættir við að klára hringtenginguna. Þar er andstaða meðal landeigenda í Borgarfirði, sem snýst ekki síst um andstöðu við vindrafstöðvar og raforkuflutning frá þeim. Nýjasta vendingin þar er stofnun samtakanna Sól til framtíðar.

Svandís bendir á að samtalið við landeigendur á línuleið Holtavörðuheiðarlínu 1 sé rétt að hefjast, enda sé sú framkvæmd komin styttra en Blöndulína 3. „Þannig að viðræður eru ekki hafnar og það er bara ágætt ef fólk talar saman þarna á svæðinu til að skilja betur og koma sínum sjónarmiðum á framfæri til okkar.“

Vonbrigði að raflínunefnd yrði ekki að veruleika

Og hún segir að ef samtal eða samningar taki lengri tíma en gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætluninni, þurfi að bregðast við því og reyna að hraða eins og best verður á komið. „Þá urðu breytingar á lögum um skipun raflínunefndar sem var hugsuð til að auka samvinnu sveitarfélaga og annarra með okkur til að geta hraðað þessari framkvæmd. En það hefur meðal annars ekki gengið eftir, sem voru ákveðin vonbrigði.“

Heimild: Ruv.is