Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að kjötvinnsla í umdeildu vöruhúsi við Álfabakka í Reykjavík, græna gímaldinu, sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Um er að ræða áform um starfsemi á vegum Ferskra kjötvara sem felur í sér móttöku á kjöti, vinnslu þess, pökkun og dreifingu í verslanir og tekur til um 3.000 fermetra á fyrstu hæð í vesturenda atvinnuhúsnæðis við Álfabakka 2a. Húsið er í heildina rúmlega 7.000 fermetrar að gólffleti.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík stöðvaði í janúar sl. framkvæmdir við þann hluta hússins sem kjötvinnslan er áformuð í og viðurkenndi að óheimilt hefði verið að gefa út byggingarleyfi fyrir kjötvinnsluna fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lægi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.
Heimild: Mbl.is