Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar til að bæta aðgengi að Staðarbjargavík á Hofsósi. Fallegt stuðlaberg laðar þar til sín sífellt fleiri ferðamenn. 63 milljónum króna var úthlutað til verksins úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Staðarbjörg eru í fjörunni við þorpið á Hofsósi og Staðarbjargavík hefur lengi verið vinsæll staður. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir að aðsókn ferðamanna hafi aukist verulega síðustu ár. Sundlaugin vinsæla á Hofsósi stendur á bakkanum ofan við víkina og hann segir það hafa átt sinn þátt í aukinni aðsókn.
Göngustígar og útsýnispallar til að bæta aðgengi
Þarna eru gamlar tröppur úr þorpinu, niður bakkann að stuðlaberginu, en aðgengið að öðru leyti takmarkað. „Þarna er verið að hugsa um að bæta öryggi fólks og bæta aðgengi. Þannig að það verða ákveðnir hlutar sem verða mjög vel aðgengilegir fyrir alla, fatlaða sem ófatlaða. Það verða einir fimm útsýnispallar á svæðinu og menn komast alla leið niður í fjöruna.“

Sveitarfélagið Skagafjörður
Vonandi hægt að hefja framkvæmdir í sumar
Staðarbjargavík hlaut næsthæsta styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Nú þegar styrkurinn liggi fyrir, segir Sigfús að verkið fari í útboð þó ekki sé ljóst hvenær framkvæmdir geti hafist. Vonandi seinni part sumars en það fari þó allt eftir fjölda tilboða og hve hratt verði hægt að vinna úr þeim.
„Það náttúrlega líður að sumri þannig að við verðum að hafa nokkuð hraðar hendur ef við ætlum að nýta sumarið í sumar. Annars verður þetta væntanlega unnið hitt sumarið, allavega að frágangi.“
Himild: Ruv.is