Home Fréttir Í fréttum Bú­seti kaupir 13 íbúðir af Skel fyrir 1,1 milljarð

Bú­seti kaupir 13 íbúðir af Skel fyrir 1,1 milljarð

29
0
Stefnisvogur 28. Mynd tekin af heimasíðu Búseta. Ljósmynd: Aðsend mynd

Skel fjárfestingarfélag vinnur að því að selja hundrað íbúðir í Stefnisvogi.

Búseti húsnæðissamvinnufélag hefur fest kaup á þrettán íbúðum að Stefnisvogi 28 fyrir 1.112 milljónir króna. Seljandi er Skel fjárfestingarfélag.

Kaupsamningur var undirritaður 8. apríl síðastliðinn. Búseti greiddi 778 milljónir króna við undirritun kaupsamnings og mun greiða 300 milljónir þann 1. september, samkvæmt kaupsamningi. Við lokaúttekt greiðir Búseti einnig 33,5 milljónir.

Í fjárfestakynningu með ársuppgjöri Skeljar fyrir árið 2024 var tilkynnt að til stæði að hefja sölu á íbúðum fjárfestingarfélagsins við Stefnisvog í ár, eftir því sem leigusamningar renna út.

Skel var í upphafi árs eigandi að 105 íbúðum að markaðsvirði 10,3 milljarðar króna að því er kemur fram í tilkynningu Skeljar vegna fyrsta ársfjórðungs sem var birt eftir lokun Kauphallarinnar í dag. Skuldir Skeljar á móti fasteignum í Stefnisvogi nema 7,1 milljörðum króna.

Skel ítrekar að áform um sölu íbúðanna séu óbreytt og hluti fasteigna hafi þegar verið settur á sölu.

Selja í kjölfar breytinga á húsaleigulögum

Skel keypti ofangreindar 105 íbúðir í Stefnisvogi í tveimur viðskiptum á árunum 2023 og 2024 fyrir samtals um 9,6 milljarða króna. Skel afhenti helmingshlut sinn í Reir þróun. sem gagngjald í kaupunum.

Skel sagði kaupin lið í því að þroska efnahagsreikning félagsins, þannig að þróunareignir yrðu að fullbúnum fasteignum með þekkt markaðsverð. Þá væri mögulegt að umbreyta eigninni í lausafé á u.þ.b. 12 mánuðum.

Fyrstu íbúðirnar fóru nánast allar í leigu til íbúa Grindavíkur og sagði félagið að komið hafi verið til móts við þeirra þarfir m.a. með stuttum uppsagnarfresti.

„Samhliða aukinni þörf á leiguhúsnæði hefur lögum verið breytt til að auðvelda þátttöku stofnannafjárfesta á markaðnum, en á sama tíma þrengja samningsfrelsi á leigumarkaði,“ segir í ofangreindri fjárfestakynningu Skeljar.

Heimild: Vb.is