Home Fréttir Í fréttum Nýtt tengivirki á Hryggstekk nauðsynlegt til að nýta aðrar framkvæmdir í austfirsku...

Nýtt tengivirki á Hryggstekk nauðsynlegt til að nýta aðrar framkvæmdir í austfirsku raforkukerfi

18
0
Mynd: Austurfrett.is

Nýtt tengivirki á Hryggstekk í Skriðdal er stærsta framkvæmdin á Austurlandi í nýrri kerfisáætlun Landsnets. Tengivirkið mun gerbreyta raforkumiðlun á Austurlandi og þurrka út helstu hindranir sem eru á svæðinu í dag. Vandamálið er að það verður ekki tilbúið fyrr en árið 2028 og litlar líkur virðast á að flýta því.

Fulltrúar Landsnets kynntu í vikunni drög að kerfisáætlun 2025-34 ára í húsnæði fyrirtækisins á Egilsstöðum. Tengivirkið á Hryggstekk var inni á eldri áætlun og er undirbúningur, svo sem skipulag að því hafið.

Með tengivirkinu er fyrirhugað að tengja Fljótsdalslínur 3 og 4, sem liggja frá Fljótsdalsstöð að álverinu í Reyðarfirði, inn á tengivirkið og þar með landskerfið. Með þessu verður hindrunum á orkuflutningi milli Austur- og Norðurlands rutt úr vegi.

Bætir tæpum 40% við kerfið á Austurlandi

Um leið léttist verulega á kerfinu á Austurlandi. Hindranir sem hafa meðal annars verið í vegi fyrir orkuflutningi til fiskimjölsverksmiðja ættu að vera úr sögunni. Með tengingunni eykst orkuflutningur til Austurlands um 50 MW en heildarorkunotkun svæðisins er í dag um 130 MW. Þá verður loks hætt að nýta til fulls aðrar nýlegar framkvæmdir eystra, helst 132 kV hringtengingu milli Eyvindarár, Eskifjarðar, Stuðla í Reyðarfirði og Hryggstekks.

Innan Landsnets hefur verið skoðað hvort hægt sé að flýta tengivirkinu, sem áformað er að spennusetja árið 2028. Á fundinum í gær kom fram að þeim möguleika sé haldið opnum en áskoranir séu í innkaupum og aðfangakeðjum.

Alcoa treystir á að allt verði í lagi

Áætlanir Landsnets eru þó ekki alveg lausar við gagnrýni. Álverið á Reyðarfirði treystir á rafmagn frá Fljótsdalsstöð og hefur til þessa verið tiltölulega einangrað frá raforkukerfinu. Flökt í landskerfinu hefur því takmörkuð áhrif í álverinu og öfugt. Smári Kristinsson, framleiðslustjóri Alcoa sem var meðal gesta á fundinum sagði að álverið hefði vissulega áhyggjur af tengingunni en treysti orðum fulltrúa um að bæði raforkugæðin og afhendingaröryggið yrðu áfram í lagi.

Fulltrúar Landsnets á fundinum sögðust telja lausnina „snilld.“ Þarna fengjust tvær línur á verði engrar það sem í raun væri aðeins verið að tengja tvær af stærstu línum landsins sem hvort sem er lægi um svæðið við tengivirkið. Öll tækni eigi að vera fyrir hendi þannig hægt sé að sanda við allar skuldbindingar gagnvart Alcoa.

Í dag er það svo að álverið getur aftengt sig landskerfinu ef eitthvað gerist. Sá möguleiki hverfur með þessari breytingu. Fulltrúar Landsnets sögðu það sérlausn sem hefði reynst vel en markmiðið væri að ekki yrði þörf á henni með öflugri byggðarlínu. Tengivirkið á Hryggstekk sé liður í henni en líka að hægt verði að byggja nýjar línur milli Blöndu og Hvalfjarðar.

Hvernig verður kostnaði dreift af tengingu Norðausturhornsins?

Á fundinum var einnig bent á að það væri veikleiki að Hryggstekkur væri í raun eina tengivirkið á Austurlandi sem tengdist inn á byggðarlínuhringinn og þaðan færi öll dreifing um fjórðunginn í gegn. Talsfólks Landsnets svaraði að þótt tengivirki væru almennt örugg væri betra að vera með tvo tengipunkta. Það sé þó eitthvað sem skoða verði til framtíðar.

Tenging í gegnum Vopnafjörð gæti verið ein leiðin til þess. Vopnafjörður fær í dag aðeins rafmagn úr einni átt, frá Héraði yfir Hellisheiði í gegnum Vopnafjarðarlínu. Að undanförnu hefur verið til skoðunar að tengja Norðausturhornið þannig að lína yrði gerð frá Kópaskeri, þar sem flutningskerfi Landsnets líkur í dag, um Þórshöfn til Vopnafjarðar.

Sú framkvæmd er enn utan kerfisáætlunarinnar. Á fundinum í vikunni skapaðist umræða um hverjir skyldu bera kostnað af þeirri framkvæmd. Landsnet flytur raforku milli landshluta og afhendir hana dreifiveitum, sem í tilfelli landsbyggðarinnar er oftast Rarik. Rarik þjónustar um 20% landsmanna. Ef Rarik byggir línuna lendir kostnaður af henni, væntanlega upp á milljarði króna, á þeim notendum eingöngu en ef Landsnet byggir hana dreifist hún á alla raforkunotendur í landinu. Á fundinum kom fram að Landsnet hafi rætt málið við þingmenn Norðausturkjördæmis og fleiri.

Leysa þarf úr launafli jarðstrengja

Sumarið 2021 var stór hluti Vopnafjarðarlínu lagður í jörðu. Við það jókst afhendingaröryggi á Vopnafirði til muna, þar sem óveður á Hellisheiði lék eldri loftlínu oft grátt. Hann skapaði hins vegar nýtt vandamál sem er mismunandi spenna milli Vopnafjarðar og Lagarfoss. Ef eitthvað kom upp á var áður hægt að loka þessa staði af í svokallaðri eyju þannig Lagarfoss sá Vopnafirði fyrir raforku. Nú er það ekki lengur hægt þannig keyra þarf Vopnafjörð á varaafli í slíkum aðstæðum. Verið er að skoða hvað hægt sé að gera til að bregðast við þessu, en nýtt tengivirki á Vopnafirði er á áætlun árin 2032-34.

Víðar á Austurlandi eru jarðstrengir sem skapa launafl í kerfinu sem bregðast þarf við. Það getur meðal annars orðið til þess að við ákveðnar kringumstæður þarf að slá út öðrum af þeim tveimur jarðstrengjum sem liggja til Norðfjarðar.

Stuðlalína 1, 132 kV jarðstrengur sem liggur frá Hryggstekk að Stuðlum í Reyðarfirði, er á eftir tengivirkinu á Hryggstekk talið helsta vandamálið austfirska raforkuflutningskerfinu þrátt fyrir að vera meðal nýrri lína, lagður árið 2005. Strengurinn sjálfur er of grannur og virðist tolla illa ofan í jörðinni, meðal annars þar sem hann liggur yfir Sléttuá. Hann er á áætlun 2032-34.

Virkjanirnar í Fjarðará tryggi orku á Seyðisfirði

Samkvæmt framkvæmdaáætlun fyrir árin 2029-31 stendur til að endurnýja þá núverandi tengivirki á Hryggstekk og byggja nýtt 66 kV tengivirki á Seyðisfirði. Seyðisfjörður er einn þeirra staða sem hafa ekki enn tvítengingu. Ekki er gert ráð fyrir að leggja nýja línu þangað heldur tryggja að þær virkjanir sem eru í Fjarðará séu þannig tengdar að þær geti fætt bæinn ef eitthvað kemur upp á. Þannig er staðan ekki í dag. Fram kom hjá fulltrúum Landsnets að þessi lausn væri fær meðan notkun á staðnum yrði ekki of mikil fyrir virkjanirnar.

Á þessu tímabili á einnig að vinna að tvítengingu Fáskrúðsfjarðar. Í dag er aðeins um jarðstreng í gegnum Fáskrúðsfjarðargöng að ræða.

Á árunum 2032-34 er gert ráð fyrir nýrri 132 kV Eyvindarárlínu, sem liggur frá Hryggstekk að tengivirki við Eyvindará, skammt utan við Egilsstaði. Endurnýjun tengivirkisins er einnig á dagskrá. Landsnet skoðar þó, í ljósi þess að í gegnum spenni þar fer tengingin til Vopnafjarðar og Seyðisfjarðar, hvort rétt sé að bæta við spenni þar fyrr.

Opið er fyrir umsagnir um drögin að kerfisáætluninni til 31. maí.

Heimild: Austurfrett.is