- Þrátt fyrir aukin umsvif á fasteignamarkaði hefur meðalsölutími íbúða lengst
- Nýjar íbúðir seljast að jafnaði hægar en aðrar íbúðir
- Meðalsölutími nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu er 140 til 175 dagar á sama tíma og meðaltölutími annarra íbúða er 70 til 75 dagar
Þrátt fyrir aukin umsvif á fasteignamarkaði hefur meðalsölutími íbúða lengst, þar sem íbúðum á sölu hefur fjölgað hraðar en seldum íbúðum. Sölutími nýrra íbúða er sérstaklega langur, en að meðaltali hefur tekið fjóra til sex mánuði að selja slíkar eignir.
HMS mælir sölutíma íbúða sem birtast á fasteignavefnum fasteignir.is með því að telja dagana frá því að fyrsta auglýsing um íbúð birtist á vefnum og þangað til að kaupsamningur um hana er undirritaður.
Sjá má þriggja mánaða meðaltal á sölutíma nýrra íbúða og annarra íbúða í Reykjavík, annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni á mynd hér að neðan. Frekari umfjöllun um fasteignamarkaðinn má nálgast í mánaðarskýrslu HMS.

Líkt og myndin sýnir seljast nýjar íbúðir að jafnaði hægar en aðrar íbúðir, en munurinn er sérstaklega mikill þessa stundina. Nýjar íbúðir sem voru seldar í Reykjavík í desember, janúar og febrúar síðastliðnum höfðu að meðaltali verið á sölu í 175 daga, eða tæplega hálft ár. Í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu höfðu nýjar íbúðir sem voru seldar á þessum tíma verið á sölu í um 140 daga, eða um 4,5 mánuði.
Meðalsölutími annarra íbúða var mun skemmri, en þó lengri en verið hefur undanfarin ár. Aðrar íbúðir sem seldar voru í desember, janúar og febrúar síðastliðnum voru að meðaltali um 70 daga á sölu í Reykjavík og um 75 daga á sölu í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Á árunum 2019-2021 voru slíkar íbúðir hins vegar að meðaltali um 50 daga á sölu á höfuðborgarsvæðinu, líkt og myndin hér að ofan sýnir.
Birgðatími mældist 16 mánuðir fyrir nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu
HMS mælir einnig birgðatíma íbúða, sem sýnir hversu langan tíma það tæki að klára núverandi framboð, miðað við umsvif á fasteignamarkaðnum mánuði áður. Birgðatími nýrra íbúða hefur stóraukist á höfuðborgarsvæðinu, þar sem margar þeirra voru óseldar í desember, janúar og febrúar síðastliðnum og tiltölulega fáar þeirra seldust á því tímabili.
Birgðatíminn mældist 16 mánuðir fyrir nýjar íbúðir á umræddu tímabili á höfuðborgarsvæðinu og 12 mánuðir fyrir nýjar íbúðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þetta er lengsti birgðatíminn sem HMS hefur mælt á slíkum íbúðum á þessum markaðssvæðum.
Birgðatími annara íbúða er hins vegar í samræmi við sögulegt meðaltal. Á höfuðborgarsvæðinu mældist hann nálægt þremur mánuðum í desember, janúar og febrúar síðastliðnum, en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var hann nálægt fjórum mánuðum.
Heimild: HMS.is