
Kadeco og Suðurnesjabær hafa undirritað viljayfirlýsingu um lóð fyrir framleiðslu IðunnarH2 á sjálfbæru þotueldsneyti. Fyrirtækið vill framleiða 65 þúsund tonn á ári og aflþörf verksmiðjunnar er metin 300 megavött.
Fyrirtækið IðunnH2 vill setja á laggirnar rafeldsneytisverksmiðju á Suðurnesjum með framleiðslugetu upp á 65 þúsund tonn árlega. Aflþörf verksmiðjunnar er áætluð 300 megavött. Til samanburðar er uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar 690 megavött.
Þetta kemur fram í nýrri viljayfirlýsingu um lóð undir verksmiðjuna sem undirrituð var af Suðurnesjabæ og Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco, við IðunniH2 fyrr í þessum mánuði.
Kadeco var stofnað 2006 eftir brottför Bandaríkjahers frá landinu og hafði umsjón með og seldi þær eignir sem Bandaríkin afhentu íslenska ríkinu eftir að herinn fór.
Meginmarkmið félagsins er í dag að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll.
Vilja fullnægja innlendri þörf fyrir vistvænt flugvélaeldsneyti
Með viljayfirlýsingunni lýsa Kadeco og Suðurnesjabær vilja til að styðja við uppbyggingu á starfsemi eins og þeirri sem IðunnH2 leggur til. Lóðin sem um ræðir er á iðnaðarsvæði innan bæjarmarka Suðurnesjabæjar, í hinum svokallaða K64 hringrásargarði. Kadeco hefur unnið að skipulagi og uppbyggingu hringrásargarðsins í samstarfi við Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Hann er í grennd Helguvíkur.
Í verksmiðju sinni vill IðunnH2 framleiða rafeldsneyti fyrir flugvélar. Það hyggst fyrirtækið gera með rafgreiningu vetnis sem er svo sameinað koldíoxíði svo úr verði kolvatnsefni. Það er svo hreinsað og lokaafurðin er vistvænt flugvélaeldsneyti sem notað er til íblöndunar við hefðbundið þotueldsneyti.
Líkt og áður segir á framleiðslugeta af vistvænu flugvélaeldsneyti að vera 65 þúsund tonn á ári. IðunnH2 telur að með því sé hægt að fullnægja þörf fyrir vistvænt flugvélaeldsneyti hér á landi sem ný Evrópureglugerð kveður á um.
Heimild: Ruv.is